Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
29.2.2008 | 22:54
Ömmuhelgi!
Já, ég held að það sé réttnefni á þessa helgi hjá mér. Í kvöld er ég að passa stóra 3ja ára strákinn hann Róbert Skúla.
Hefðbundið föstudagskvöld hjá okkur. Hann elskar spurningaþætti og Gettu Betur stóð undir okkar væntingum. "það var rétt" glumdi nokkrum sinnum hjá mínum manni og þegar þætti lauk voru úrslitin að hans mati að, stóru strákarnir hefðu unnið þetta!
Þar sem ég er stödd á hans heimili var rútínan fyrir svefninn með þeim hætti, sem hann er vanur: Amma, ekki pissa fyrst! Sko, fyrst bursta tennur, svo pissa, svo þvo sér, svo drekka smá mjólk, svo lesa bók, svo syngja og svoooooo sofa! Og þetta gekk eftir, eins og stafur í bók. Ef foreldrasettið hefur eitthvað við þetta að athuga, verða þau bara að breyta forritinu.
Á morgun fer ég svo að passa Ericu Ósk, bráðum 1 árs. Það verður spennandi, því á þessum aldri eru breytingarnar svo miklar á milli heimsókna. Ég hef ekki séð barnabörnin í 3 vikur, vegna flensu, vinnu og svo þurfti "Nóri" að skella sér í heimsókn til mín í þessari viku!
Ég veit ekki hvort ég næ að hitta elsta barnabarnið, hana Kristrúnu Amelíu, en ég mun reyna!
Ömmuhelgar eru æðislegar!
Bloggar | Breytt 1.3.2008 kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.2.2008 | 21:07
Enn einn minnisvarðinn!
Þá hefur nýjasti heilbrigðisráðherrann komist að sömu niðurstöðu og nokkrir af fyrirrennurum hans: Byggja skal nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut!! Ég hef aldrei skilið röksemdir fyrir þessari ákvörðun. Hringbrautin er ekki lengur miðsvæðis á Reykjavíkur svæðinu, Hringbrautin er í útjaðri stór Reykjavíkur svæðisins.
Hringbrautar sjúkrahúsið er kannski í nágrenni við Háskóla- og rannsóknar aðstöðu í Vatnsmýrinni, en það verður varla þannig að fólk verði hlaupandi á tveimur jafnfljótum á milli þessara svæða, enda býst ég við að starfsmenn og nemar þessara stofnana búi vítt og breytt um stór Reykjavikur svæðið og að það sé ákveðið með einhverjum fyrirvara hvar deginum verði varið!
Það var voðalega sætt, þegar tilkynnt var að nota ætti hluta af söluandvirði Símans í byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, en það gleymist alltaf að það þarf að manna þetta sjúkrahús með góðu starfsfólki og miðað við fréttir undanfarin misseri, standa fyrir dyrum lokanir deilda vegna uppsagna starfsfólks, sem er ósátt við sín kjör.
Hvernig væri að hluti af þessum Símasölupeningum verði notaður til að bæta kjör heilbrigðisstétta? Húsbyggingar eins og nýtt hátæknisjúkrahús og ný hjúkrunarheimili bæta ekki þjónustuna við samborgarana ef ekkert er starfsfólkið!
![]() |
Besta staðsetningin við Hringbraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.2.2008 | 18:28
Fríðuhúskórinn!
Annað hvort er ellikelling að ná mér eða þá að ég er bara alls ekki búin að ná mér af flensunni, ja nema hvort tveggja sé! Allavega er maður uppgefin eftir undangengna vinnutörn um helgina.
Dagurinn í dag var samt alveg sérstaklega skemmtilegur og það kom mér á óvart þar sem ekki var laust við að ég væri hálfkvíðin vegna væntanlegrar heimsóknar Fríðuhúskórsins til okkar í Laugaskjól.
Fríðuhúskórinn samanstendur af frábæru fullorðnu fólki, sem er í dagvist í Fríðuhúsi, og er staðsett í nágrenni við okkur Laugaskjóls klanið. Flest komu þau fótgangandi, en einhverjir komu á bíl.
Ástæðan fyrir kvíða mínum, sem var ástæðulaus í þetta sinn, er sú að heimilisfólkið í Laugaskjóli getur verið ansi viðkvæmt fyrir óþekktu áreiti. En starfsfólk beggja staða veit við hverju má búast og stóð sig frábærlega.
Fríðuhúskórinn, sem er auðsýnilega velæfður, söng nokkur lög við píanóundirleik, og tóku flestir íbúar Laugaskjóls vel undir í söngnum. Að því loknu buðum við uppá nýbakaðar vöfflur og rjóma með kaffinu, áður en gestirnir héldu aftur heim á leið.
Frábær heimsókn, sem ég held að allir hafi notið, bæði gestir, heimilisfólk og starfsfólk beggja heimila. Ég þakka fyrir mig!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2008 | 12:37
Okkar minnsti bróðir!
Er verið að lýsa ástandi í einu ríkasta ríki jarðar?
Á bak við þessa 111 einstaklinga eru margfalt fleiri einstaklingar, sem hafa í flestum tilvikum liðið vítiskvalir vegna úrræðaleysis "hins opinbera" í málefnum þessa fólks.
Heimilisleysi er ávísun á geðveiki, það er ekki spurning í mínum huga. Enda skilst mér að það sé bundið í stjórnarskrá að allir eigi rétt á þaki yfir höfuðið.
Kannski væri rétt að aðstandendur þessara einstaklinga, skjóti máli sínu til mannréttindadómstóls og fái úr því skorið hvort ekki sé verið að brjóta stjórnarskrárbundinn rétt á þessu fólki.
![]() |
111 manns á götunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.2.2008 | 00:19
Heillaóskir!
Sigrún, veistu að bambusinn, sem heldur Heklu á floti er orðin svo fúin, að hann brotnar sennilega í næstu ferð til Reykjavíkur?
Þarna var afprýðisamur stóri bróðir að hræða mig frá því að fara í Reykjavíkurferð með mömmu okkar. Ég hef verið 5 ára og hann 8 ára, þegar þetta var og þetta er fyrsta minningin sem greipt er í huga mér af samskiptum okkar systkinanna. Ég fór í þessa hættulegu sjóferð og komst aftur heim en þá með Esjunni og ég vonaði bara að bambusinn, sem héldi henni á floti væri nýr!
Af einhverjum ástæðum voru það bara við Svenni af þessum 5 systkina hópi, sem fengum pólitíkurbakteríuna í okkur. Við vorum bæði þrælpólitísk frá unga aldri, en sjaldnast höfum við samt fylgt sama stjórnmálaflokki. Það er kannski ekkert skrítið, þar sem foreldrar okkar voru víst ekki samstíga á því sviðinu, en það vissum við ekki þá.
Einu sinni eða kannski tvisvar fórum við samt í framboð fyrir sama flokkinn í sitthvoru kjördæminu. Það var Þjóðarflokkurinn sálugi, sem hafði það helst á stefnuskrá sinni að berjast fyrir jafnrétti landshlutanna. Seinna enduðum við svo aftur í sitt hvorum stjórnmálaflokknum en baráttumál Þjóðarflokksins fylgdu okkur inn í þá flokka sem við völdum að starfa með. Reyndar fór Þjóðarflokksfólkið í hina ýmsu flokka og alla vega 2 þeirra fóru á þing.
Ég man ekki eftir að við Svenni höfum verið efnislega ósammála hvað pólitík varðar, en einhvernvegin hefur það samt æxlast svo að við kjósum sjaldnast sama flokkinn. En það er ekki öll nótt úti, hver veit nema við eigum eftir að sameina krafta okkar á vettvangi stjórnmálanna? Við erum nú ekki búin að prófa þá alla!
Til hamingju með afmælið elsku bróðir og hafðu það gott!
Jón Þór Bergþórsson, systursonur minn er að verja doktorsritgerð í dag. Ég sendi honum hlýja strauma og óska honum góðs gengis. Völlu systir óska ég til hamingju með drenginn!
Uppfærðar fréttir þann 23.02.: Auðvitað gekk þetta glimrandi vel hjá "drengnum" okkar! Til hamingju Dr. Jón Þór!
Bloggar | Breytt 23.2.2008 kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.2.2008 | 12:49
Að upphefja sjálfan sig á annarra kostnað!
Á sama tíma og skólabörn á Reyðarfirði ganga fylktu liði gegn einelti og voru með það á kristaltæru að það væri ljótt að hrekkja aðra krakka og vera vondur við einhvern, steig einn valdamesti maður þjóðarinnar á tölvustokk og svívirti á ómálefnalegan hátt pólitískan andstæðing sinn! Já misjafnt hafast börnin að.
Getur það verið ís lenska að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra?
Ég hef stundum velt þessu fyrir mér af gefnu tilefni.
Mér var innprentað það í æsku að það væri ljótt að vera montin. Mennskur monthani væri ekkert öðruvísi en gargandi hani á priki í hænsnakofa. Það eru samferðamenn okkar í lífinu sem dæma verk okkar og framgöngu en ekki við sjálf.
Hverjum finnst sinn fugl fegurstur er máltæki, sem lýsir t.d. vel viðhorfum fjölskyldna til síns fólks og flokksfélaga allra stjórnmálaflokka til sinnar forystu. En það er aldrei einum bót þótt annar sé verri!
Að fylgja sannfæringu sinni er oft á tíðum talin dyggð, en stundum getur þessi sannfæring breyst í þráhyggju, sem lýsir sér í því að ekki er hlustað á andstæðar skoðanir og þeim er fundið allt til foráttu. Málamiðlanir og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra geta komið í veg fyrir styrjaldir milli þjóða eða þjóðarbrota.
Hún Sigga amma mín, hefði örugglega haft skoðun á orðræðu iðnaðarráðherrans í miðnæturbloggi sínu um pólitíska andstæðinginn. Ég gæti trúað að hún hefði sagt að hann væri sjálfum sér verstur, eða einfaldlega hátt hreykir heimskur sér!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2008 | 13:37
Fyrrverandi leiðtogar!
Ég var að hlusta/horfa á Jón Baldvin Hannibalsson í hádegisviðtalinu á stöð 2. Allir hafa skoðun á þessum ágæta manni, líka ég. Það má . því hann hefur sjálfur skipað sér á bekk, sem opinber persona.
Mér hefur yfirleitt, fundist hann skemmtilegur, en oft hrokafullur og montinn. Í dag fannst mér hann vera þetta allt.
Jón Baldvin hlýtur að hafa verið skemmtilegur kennari, og hefur örugglega ekki átt í vandræðum með að vekja áhuga á námsefninu. En miðað við hvað honum finnst hann vera svakalega klár, er alveg ótrúlegt að undir hans forystu skyldi Alþýðuflokkurinn gamli verða að smáflokki.
Mér sýnist að staðan sé sú í dag að allir gömlu fjórflokkarnir eigi sinn djöful að draga og að allir séu þeir komnir með sína gömlu formenn í hálfgerða andstöðu við núverandi yfirlýsta stefnu flokkanna eins og þeir líta út í dag.
Vofa Davíðs Oddsonar er yfir og allt í kring hjá Sjálfstæðismönnum!
Framsóknarmenn hafa átt við þennan vanda síðan Steingrímur Hermannsson, steig niður fyrir Halldór Ásgrímsson og allir vita hvern hug Guðni Ágústsson ber til fyrirvera síns.
Jón Baldvin hefur í einhver skipti komið, glottandi, með vinsamlegar ábendingar til Ingibjargar Sólrúnar, sem að hans mati er varkár, en hún ætti ekki að velkjast í vafa um hvað hann myndi gera!
Síðast en ekki síst er Margrét Frímannsdóttir, f.v. formaður gamla Alþýðubandalagsins, himinlifandi yfir að vera ekki í daglegu sambandi og argaþrasi við sína fyrrverandi samflokksmenn, sem í dag skipa forystusveit Vinstri Grænna!
Er það nokkuð skrítið að stofnað sé til nýrra stjórnmálaflokka með reglulegu tímabili hér í landi konungborinna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2008 | 18:05
Mér finnst rigningin góð...
Mikið rosalega getur verið leiðinlegt að liggja í flensu! Á morgun er komin vika frá því ég fór í að liggja þetta úr mér, 6 dagar frá því ég fór á fúkkalyf og ennþá hósta ég. Magavöðvar sárir af hóstaáreynslu, en ég á samt ekki von á því að þeir hafi styrkst nokkuð við þetta
ekki alveg réttu æfingarnar. Hef það samt á tilfinningunni að ég fari að skríða saman og geti mætt á aðalfund Súgfirðingafélagsins á morgun.
Á meðan ég hef legið, hefur snjórinn horfið, sem betur fer. Ég hef ekki verið mikil snjómanneskja eftir að ég fullorðnaðist, sem er kannski ekkert skrítið eftir að hafa alist upp á kafi í snjó öll mín æskuár.
Snjór getur verið fallegur, þegar hann er nýfallinn og hreinn, en í bílaborg eins og Reykjavík er, verður hann fljótt skítugur og ljótur.
Sólin á þessum árstíma, fer líka svolítið í pirrurnar á mér. Hún er svo lágt á lofti, að hún blindar hina bestu bílstjóra og svo lýsir hún beint inn um stofugluggann hjá manni og beinir augum manns að rykinu, sem ekki stóð til að dusta fyrr en með vorinu! Mætti ég þá biðja um Spillirinn góða, sem hlífir okkur Súgfirðingum fyrir svona hættulegum uppljóstrunum.
Já, mér finnst rigningin góð, eins og nágrannar mínir á Ísafirði sungu forðum daga.
Bloggar | Breytt 17.2.2008 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2008 | 13:29
Að viðhalda fátækt!
Jaja, mál eru farin að skýrast!
Ég veit ekki hver lágmarkslaun eru hjá fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi, en miðað við auglýst lágmarkslaun verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði munu lágmarksgrunnlaun þeirra skjólstæðinga ekki ná núgildandi lágmarksframfærlu fyrr en á árinu 2010! Og eitthvað mun nú framfærslukostnaður hækka fram að þeim tíma.
Jú, jú, svo er biðlað til stjórnvalda um einhverja skattalækkun, en það er bara þannig að jafnvel þeir tekjulægstu vilja taka þátt í uppbyggingu á grunnþjónustu samfélagsins og vilja fæstir láta líta á sig sem ölmusuþega.
Í ríku velferðarþjóðfélagi eins og við teljum okkur vera hlýtur það að vera lágmarkskrafa að útborguð lágmarkslaun séu hærri en viðurkenndur lágmarks framfærslukostnaður.
![]() |
Samningur undirritaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2008 | 21:33
Lágmarksframfærsla!
Athyglisverð auglýsinga herferð, sem Verkalíðfélagið Hlíf í Hafnarfirði stendur fyrir þessa dagana, en þar eru settar fram spurningar sem hljóma einhvernvegin svona:
1)
Er réttlátt að skattleggja laun, sem eru kr. 125.000.- á mánuði þegar lágmarksframfærsla er kr. 170.000.- á mánuði?
2)
Er einhver á móti því að lágmarkslaun verkafólks hækki úr kr. 125.000.- í kr. 155.000.- á mánuði?
Ég vil nú byrja á því að óska Verkalýðsfélaginu Hlíf til hamingju með að vera búið að reikna út lágmarks framfærslugrunn! Það var kominn tími til að einhver gerði það.
Reyndar finnst mér það grundvallar mannréttindi að til verði opinber og viðurkenndur framfærslugrunnur, þar sem kjör eru skilgreind, sem duga eiga til lágmarksframfærslu. Lágmarkslaun og almannatryggingabætur eiga aldrei að vera lægri en viðurkennd framfærslumörk.
Mér finnst það því skjóta skökku við, þegar Verkalýðsfélag setur fram launakröfur þar sem lágmarksgrunnlaun eiga að vera kr. 155.000.- á sama tíma og þeir segja okkur að lágmarksframfærsla einstaklings sé ekki undir kr. 170.000.-
Ég fæ dæmið ekki til að ganga upp. Þarna vantar í fyrsta lagi kr. 15.000.- upp á að grunnlaunin nái lágmarksframfærslu og síðan á eftir að taka ýmislegt af þessum grunnlaunum s.s. skatta, lífeyrissjóð og svo maður gleymi nú ekki stéttarfélagsgjöldunum!
Halló Hafnarfjörður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Júní 2015
- Ágúst 2014
- Apríl 2014
- Ágúst 2013
- Maí 2013
- Febrúar 2013
- Desember 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Bloggvinir
-
sudureyri
-
schmidt
-
vestfirdingurinn
-
asthildurcesil
-
holmdish
-
hallibjarna
-
jenfo
-
hross
-
hronnsig
-
rognvaldurthor
-
iaprag
-
larahanna
-
svanurg
-
hildurhelgas
-
milla
-
ragnhildur
-
jyderupdrottningin
-
birgitta
-
jogamagg
-
beggita
-
ammadagny
-
steindora
-
jonaa
-
gudrunjona
-
faereyja
-
roslin
-
liljabolla
-
lehamzdr
-
gurrihar
-
helgamagg
-
gledibankinn
-
formosus
-
gerdurpalma112
-
silfri
-
raksig
-
rutlaskutla
-
annaragna
-
sylviam
-
skessa
-
hehau
-
ringarinn
-
kreppan
-
don
-
heidistrand
-
korntop
-
katrinsnaeholm
-
danjensen
-
joninaros
-
tara
-
kruttina
-
manisvans
-
valgeirskagfjord
-
rannveigh
-
emm
-
olinathorv
-
christinemarie
-
bubot
-
ksh
-
jonthorolafsson
-
skordalsbrynja
-
kaffi
-
icekeiko
-
lillagud
-
wonderwoman
-
jonerr
-
stinajohanns
-
saedishaf
-
himmalingur
-
bjarnihardar
-
katan
-
gloppa
-
helgigunnars
-
strunfridur
-
annakr
-
credo
-
fannygudbjorg
-
lucas
-
sveitaorar
-
jakobk
-
disdis
-
sirri
-
finni
-
brahim
-
heidathord
-
sigrunzanz
-
draumur
-
naflaskodun
-
stjornlagathing
-
valdimarjohannesson