Leita í fréttum mbl.is

Bara þreytt!

Þegar maður kemur þreyttur heim eftir vinnutörn – næturvakt - kvöldvakt – morgunvakt – morgunvakt með einhverja óútskýrða verki um allan skrokk er það rúmið eða kannski sófinn, sem freistar mest!

Þegar maður er byrjaður að blogga, finnst manni að það verði nú að skrifa eitthvað, helst á hverjum degi.  Málið er að vinnan mín, þótt skemmtileg sé, getur líka “þurrausið” mann andlega!

Hvar eru nú allar skoðanirnar Sigrún mín?  Stundum er bara best að halda þeim fyrir sig, annars gæti maður bara lent í leiðinlegu rifrildi! (þegar maður er farin að tala við sjálfan sig.........).Blush

Ég gæti t.d. alveg bloggað um komandi kjarasamninga heilbrigðisstétta.  Þessir kjarasamningar koma auðvitað til með að verða þeir bestu hingað til.  Fyrir síðustu alþingis- já og sveitarstjórnarkosningar voru allir sammála um að “leiðrétta” þyrfti kjör þessara stétta, það væri til skammar fyrir þjóðina, hvernig kjör þessara stétta hefðu dregist aftur úr og að við hefðum sko alveg efni á því að borga þessu fólki almennileg laun!  Og koma svo!!!Errm

En nú eru þessir sömu stjórnmálamenn, sem þá voru frambjóðendur, farnir að tala um kreppu, þannig að ég er ekki eins bjartsýn. 

Það var því ANSI hressandi að hlusta á Sigurð Einarsson, sem er eitthvað stórt hjá KB banka, tjá sig í hádegisviðtalinu á stöð 2.  Ekkert krepputal þar á ferð:  “peningar eru eins og vatn, þeir flæða og finna sér farveg”! (verst með þessar d-skotans stíflur, sem bankarnir hafa komið sér upp, allavega sé ég ekki meira af mínum peningum, þegar bankinn minn hefur komist yfir þá!!).  Segja upp fólki?  Jú, jú, en það er bara vegna þess að við erum með of margt fólk í vinnu!  Lækka laun stjórnarmanna?  Nei, nei, frekar hækka þau, stjórnarmenn vinna svo sannarlega fyrir laununum sínum, það kostar að hafa gott fólk í stjórn bankans!  Ég vil gjarnan komast í stjórn hjá Sigurði Einarssyni í KB-banka, hann kann að meta gott gott fólk og borgar þeim vel! Ekkert krepputal, segja bara upp “óþarfa” starfsfólki á “gólfinu” en gera vel við þá sem tróna í rjáfrinu!  Gerum Sigurð Einarsson að fjármálaráðherra, hann veit hvað þarf að gera til að halda góðu fólki í “vinnu”:  Borga þeim góð laun!Cool

Nú ætla ég að leggja mig og tek svo helgarvaktirnar með trukki!  Góða fríhelgi þið hin!Heart


Á internethraða!

Ísafjörður- Reykjavík - Ástralía- Ameríka!

Internetið getur verið dásamlegt og Moggabloggs-samfélagið er engu líkt!

Í morgun, þegar ég fór bloggrúntinn og kom við hjá henni Ásthildi Cesil, bloggvinkonu minni, sá ég að hún hafði sett inn nokkrar ”fyrstu sólargeislamyndir” frá Suðureyri.  Ég fékk heimþrá, varð hálfklökk og vildi meira!!!  Ég vildi komast heim á kvistinn minn að Aðalgötu 37.  Og hvað gerir Ásthildur?  Hún uppfyllti ósk mína samdægurs.

Aðalgata 37

Aðalgata 37 – 39 (var tvíbýli), var byggt á fyrrihluta síðustu aldar af tvennum hjónum, þeim  Alberti Finni Jóhannessyni og Sigríði Jónu Guðnadóttur, sem voru afi minn og amma og Birni Guðbjörnssyni og Kristrúnu Örnólfsdóttur, bróðurdóttur Alberts afa.

Sambýlið með þessum fjölskyldum var afar traust og gott.  Um það leyti sem ég kom í heiminn hafa sennilega 16 manns búið í húsinu ef ég fer rétt með, gætu hafa verið fleiri.

Húsið var innangengt um háaloftið, sem var heil paradís fyrir mig vegna þess að þar mátti ég nálgast heilu árganganna af Fálkanum, ef ég skilaði þeim aftur í góðu ásigkomulagi.

Eftir að Rúna frænka var orðin ein í sínum enda, kom það stundum fyrir að hún kom til okkar í gegnum háaloftið þegar hún varð veðurhrædd.

Þegar allt fylltist af ”sunnanfólki” á sumrin, fékk ég að gista hjá Rúnu og Bjössa.  Það var yndislegt!  Við mig var dekrað, en því var ég ekki vön heima hjá mér.  Ég fékk flóaða mjólk og kringlu upp í herbergi áður en ég fór að sofa.  Sigga amma mín og Rúna frænka, voru mínar bestu trúnaðarvinkonur.  Ég á þeim svo margt að þakka.

Mamma og Pabbi eignuðust svo hinn endann, eftir að Rúna féll frá.  Þá voru þau orðin 2 ein í kotinu, sem áður hafði hýst hátt í 20 manns á einhverjum tímum.

Í dag er húsið í eigu frænku minnar Svövu Valgeirsdóttur og hennar manns (Venni frá Ísafirði??), en þau hafa gert húsið upp af mikilli nærgætni og góðum smekk.  Mér er sagt að Svava hafi ákveðið það á unga aldri að þetta væri húsið, sem hún vildi eignast.  Þetta var hennar draumahús.  Hún labbaði þarna framhjá á hverjum degi, þar sem hún átti heima aðeins utar á eyrinni og lét sig dreyma.  Hennar draumur rættist!

Abbi í Ástralíu og Berglind í Ameríkunni:  Þetta er semsagt húsið okkar í dag, 03.03.08.

Ásthildur takk fyrir okkur, þú ert best!


Öldungurinn ég!!

Þá er viðburðarík ömmuhelgi að enda komin.  Pössunarferlið tók óvænta stefnu í gærkvöld, þar sem ákveðið var að ég myndi gista hjá ömmustelpunum í Grafarvoginum, en sonur og tengdadóttir enduðu sína skemmtun í kotinu mínu!  Þau voru samt mætt endurnærð og "úthvíld" uppúr kl. 10:00 í morgun til að takast á við áframhaldandi foreldrahlutverk!Wink

Erica Ósk, sem er 11 og 1/2 mánaða gömul var sofnuð um kl. 9:00 og þá tók við smá kósýkvöld hjá okkur Kristrúnu Amelíu, sem verður 8 ára í ágúst n.k.

Við Kristrún tókum aðeins í spil og auðvitað vann hún ömmu gömlu.  Síðan skoðuðum við myndir fráSætar systur! æskuárum mínum, sem eru til hliðar hér á síðunni og hún átti sko ekki í neinum vandræðum með að "spotta" þá gömlu þegar hún var ung.  Ástæðan var einföld að hennar mati:  Þú varst bara alveg eins og ég er núna!!!Whistling  Þetta er ég búin að vera að segja, í hálfum hljóðum samt, í lengri tíma en hef ekki fengið miklar undirtektir hingað til.  Heldur fólk virkilega að ég hafi alltaf litið út eins og ég geri í dag, hálfsextug kellingin???

Ég fékk athyglisverða spurningu frá sonardótturinni eftir myndaskoðun:  Amma var ekki erfitt að vera lítil stelpa í "gamla daga"?  Af hverju heldur þú það "rýjan mín"? spurði ég.  Nú.... þá þurfti að fara á hestbaki í skólann og svo áttuð þið ekkert dót til að leika með, var hennar ályktun!   Eftir smá umræður um þetta, komst ég að því að hennar upplifun af "gömlum dögum" koma frá ítrekuðum heimsóknum í Árbæjarsafn, sem er í nágrenni við hennar fasta heimili!Grin

Erica Ósk svaf til kl. 8:30 í morgun, en amma gamla fékk "hjartahnoð", andlits- og baknudd með reglulegu millibili, þar sem litlar iljar tróðu marvaða á ömmuskrokk!InLove  Ég verð víst að viðurkenna að aldurinn færist yfir, því þrátt fyrir auðvelda pössun, svaf ég í marga klukkutíma eftir að heim var komið!Blush

Á heimleiðinni ók ég fram hjá "skíðbrekku-fjöllunum" hennar Hallgerðar bloggvinkonu!W00t


Ömmuhelgi!

Já, ég held að það sé réttnefni á þessa helgi hjá mér.  Í kvöld er ég að passa stóra 3ja ára strákinn hann Róbert Skúla. 

Hefðbundið föstudagskvöld hjá okkur.  Hann elskar spurningaþætti og Gettu Betur stóð undir okkarRóbert að ulla! væntingum.  "það var rétt" glumdi nokkrum sinnum hjá mínum manni og þegar þætti lauk voru úrslitin að hans mati að, stóru strákarnir hefðu unnið þetta!Wink

Þar sem ég er stödd á hans heimili var rútínan fyrir svefninn með þeim hætti, sem hann er vanur:  Amma, ekki pissa fyrst!  Sko, fyrst bursta tennur, svo pissa, svo þvo sér, svo drekka smá mjólk, svo lesa bók, svo syngja og svoooooo sofa!  Og þetta gekk eftir, eins og stafur í bók.  Ef foreldrasettið hefur eitthvað við þetta að athuga, verða þau bara að breyta forritinu. Halo

Á morgun fer ég svo að passa Ericu Ósk, bráðum 1 árs.  Það verður spennandi, því á þessum aldri eru breytingarnar svo miklar á milli heimsókna.  Ég hef ekki séð barnabörnin í 3 vikur, vegna flensu, vinnu og svo þurfti "Nóri" að skella sér í heimsókn til mín í þessari viku!

Ég veit ekki hvort ég næ að hitta elsta barnabarnið, hana Kristrúnu Amelíu, en ég mun reyna! 

Ömmuhelgar eru æðislegar! 


Enn einn minnisvarðinn!

Þá hefur nýjasti heilbrigðisráðherrann komist að sömu niðurstöðu og nokkrir af fyrirrennurum hans:  Byggja skal nýtt “hátæknisjúkrahús” við Hringbraut!!  Ég hef aldrei skilið röksemdir fyrir þessari ákvörðun.  Hringbrautin er ekki lengur miðsvæðis á Reykjavíkur svæðinu,  Hringbrautin er í útjaðri stór Reykjavíkur svæðisins.

Hringbrautar sjúkrahúsið er kannski í nágrenni við Háskóla- og rannsóknar aðstöðu í Vatnsmýrinni, en það verður varla þannig að fólk verði “hlaupandi” á tveimur jafnfljótum á milli þessara svæða, enda býst ég við að starfsmenn  og nemar þessara stofnana búi vítt og breytt um stór Reykjavikur svæðið og að það sé ákveðið með einhverjum fyrirvara hvar deginum verði varið!

Það var “voðalega sætt”, þegar tilkynnt var að nota ætti hluta af söluandvirði Símans í byggingu nýs “hátæknisjúkrahúss”, en það gleymist alltaf að það þarf að manna þetta sjúkrahús með góðu starfsfólki og miðað við fréttir undanfarin misseri, standa fyrir dyrum lokanir deilda vegna uppsagna starfsfólks, sem er ósátt við sín kjör.

Hvernig væri að hluti af þessum “Símasölupeningum” verði notaður til að bæta kjör heilbrigðisstétta?  Húsbyggingar eins og nýtt “hátæknisjúkrahús” og ný hjúkrunarheimili bæta ekki þjónustuna við samborgarana ef ekkert er starfsfólkið!


mbl.is Besta staðsetningin við Hringbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fríðuhúskórinn!

Annað hvort er ellikelling að ná mér eða þá að ég er bara alls ekki búin að ná mér af flensunni, ja nema hvort tveggja sé!  Allavega er maður uppgefin eftir undangengna vinnutörn um helgina.

Dagurinn í dag var samt alveg sérstaklega skemmtilegur og það kom mér á óvart þar sem ekki var laust við að ég væri hálfkvíðin vegna væntanlegrar heimsóknar ”Fríðuhúskórsins” til okkar í Laugaskjól.

”Fríðuhúskórinn” samanstendur af frábæru fullorðnu fólki, sem er í dagvist í Fríðuhúsi, og er staðsett í nágrenni við okkur Laugaskjóls – klanið.  Flest komu þau fótgangandi, en einhverjir komu á bíl.

Ástæðan fyrir kvíða mínum, sem var ástæðulaus í þetta sinn, er sú að heimilisfólkið í Laugaskjóli getur verið ansi viðkvæmt fyrir óþekktu áreiti.  En starfsfólk beggja staða veit við hverju má búast og stóð sig frábærlega.

”Fríðuhúskórinn”, sem er auðsýnilega velæfður, söng nokkur lög við píanóundirleik, og tóku flestir íbúar Laugaskjóls vel undir í söngnum. Að því loknu buðum við uppá nýbakaðar vöfflur og rjóma með kaffinu, áður en gestirnir héldu aftur heim á leið.

Frábær heimsókn, sem ég held að allir hafi notið, bæði gestir, heimilisfólk og starfsfólk beggja heimila.  Ég þakka fyrir mig!


Okkar minnsti bróðir!

Er verið að lýsa ástandi í einu ríkasta ríki jarðar?

Á bak við þessa 111 einstaklinga eru margfalt fleiri einstaklingar, sem hafa í flestum tilvikum liðið vítiskvalir vegna úrræðaleysis "hins opinbera" í málefnum þessa fólks.

Heimilisleysi er ávísun á geðveiki, það er ekki spurning í mínum huga.  Enda skilst mér að það sé bundið í stjórnarskrá að allir eigi rétt á þaki yfir höfuðið. 

Kannski væri rétt að aðstandendur þessara einstaklinga, skjóti máli sínu til mannréttindadómstóls og fái úr því skorið hvort ekki sé verið að brjóta stjórnarskrárbundinn rétt á þessu fólki. 


mbl.is 111 manns á götunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heillaóskir!

 

Sigrún, veistu að bambusinn, sem heldur Heklu á floti er orðin svo fúin, að hann brotnar sennilega í næstu ferð til Reykjavíkur?

Þarna var afprýðisamur stóri bróðir að hræða mig frá því að fara í Reykjavíkurferð með mömmuSvenni - afmæli okkar.  Ég hef verið 5 ára og hann 8 ára, þegar þetta var og þetta er fyrsta minningin sem greipt er í huga mér af samskiptum okkar systkinanna.  Ég fór í þessa hættulegu sjóferð og komst aftur heim en þá með Esjunni og ég vonaði bara að bambusinn, sem héldi henni á floti væri nýr!

Af einhverjum ástæðum voru það bara við Svenni af þessum 5 systkina hópi, sem fengum ”pólitíkurbakteríuna” í okkur.  Við vorum bæði þrælpólitísk frá unga aldri, en sjaldnast höfum við samt fylgt sama stjórnmálaflokki.  Það er kannski ekkert skrítið, þar sem foreldrar okkar voru víst ekki samstíga á því sviðinu, en það vissum við ekki þá.

Einu sinni eða kannski tvisvar fórum við samt í framboð fyrir sama flokkinn í sitthvoru kjördæminu.  Það var Þjóðarflokkurinn sálugi, sem hafði það helst á stefnuskrá sinni að berjast fyrir jafnrétti landshlutanna.  Seinna enduðum við svo aftur í sitt hvorum stjórnmálaflokknum en baráttumál Þjóðarflokksins fylgdu okkur inn í þá flokka sem við völdum að starfa með.  Reyndar fór Þjóðarflokksfólkið í hina ýmsu flokka og alla vega 2 þeirra fóru á þing.

Ég man ekki eftir að við Svenni höfum verið efnislega ósammála hvað pólitík varðar, en einhvernvegin hefur það samt æxlast svo að við kjósum sjaldnast sama flokkinn.  En það er ekki öll nótt úti, hver veit nema við eigum eftir að sameina krafta okkar á vettvangi stjórnmálanna?  Við erum nú ekki búin að prófa þá alla!

Til hamingju með afmælið elsku bróðir og hafðu það gott!

 

Jón Þór Bergþórsson, systursonur minn er að verja doktorsritgerð í dag.  Ég sendi honum hlýja strauma og óska honum góðs gengis.  Völlu systir óska ég til hamingju með drenginn!

Uppfærðar fréttir þann 23.02.:  Auðvitað gekk þetta glimrandi vel hjá "drengnum" okkar!  Til hamingju Dr. Jón Þór! 


Að upphefja sjálfan sig á annarra kostnað!

Á sama tíma og skólabörn á Reyðarfirði ganga fylktu liði gegn einelti og voru með það á kristaltæru að það væri ljótt að hrekkja aðra krakka og vera vondur við einhvern, steig einn valdamesti maður þjóðarinnar á tölvustokk og svívirti á ómálefnalegan hátt pólitískan andstæðing sinn!  Já misjafnt hafast börnin að.

Getur það verið ís – lenska að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra?

Ég hef stundum velt þessu fyrir mér af gefnu tilefni.

Mér var innprentað það í æsku að það væri ljótt að vera montin.  Mennskur monthani væri ekkert öðruvísi en gargandi hani á priki í hænsnakofa.  Það eru samferðamenn okkar í lífinu sem dæma verk okkar og framgöngu en ekki við sjálf.

“Hverjum finnst sinn fugl fegurstur” er máltæki, sem lýsir t.d. vel viðhorfum fjölskyldna til síns fólks og flokksfélaga allra stjórnmálaflokka til sinnar forystu.  En “það er aldrei einum bót þótt annar sé verri”!

Að fylgja sannfæringu sinni er oft á tíðum talin dyggð, en stundum getur þessi sannfæring breyst í þráhyggju, sem lýsir sér í því að ekki er hlustað á andstæðar skoðanir og þeim er fundið allt til foráttu.  Málamiðlanir og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra geta komið í veg fyrir styrjaldir milli þjóða eða þjóðarbrota. 

Hún Sigga amma mín, hefði örugglega haft skoðun á orðræðu iðnaðarráðherrans í miðnæturbloggi sínu um pólitíska andstæðinginn.  Ég gæti trúað að hún hefði sagt að hann væri sjálfum sér verstur, eða einfaldlega „hátt hreykir heimskur sér“!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband