Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
29.6.2008 | 12:59
Frábært átthagamót!
Komin heim eftir frábæra skemmtun á skjálftaslóðum. Kom reyndar með seinni skipunum í gærkvöld, las nokkrar frábærar færslur hjá bloggvinum og hrundi svo í rúmið og hef verið meðvitundarlaus síðan.
Ég er farin að halda að þetta með hlýnun jarðar sé einhver ímyndun í fólki. Við Ásta æskuvinkona lögðum af stað úr bænum seinnipart föstudags í glaðasólskyni og 19° hita. Þegar við komum að næturgistingarstað hjá Evu Ástusystur á Selfossi var svo mikil rigning að varla var fært frá bíl að Evu dyrum. Við sátum af okkur rigninguna í Evu eldhúsi og nærðum okkur á lystagóðri humarsúpu með þeim Evu og Hafliða. Skiptum svo yfir í kuldagallann, þ.e.a.s. eins mikinn kuldagalla og vitsmunir segja að pakka skuli þegar lagt er af stað í 19° hita.
Eftir veislutrakteringar hjá Evu og Hafliða héldum við á vit Sumargleðinnar á Laugarvatni, sem Súgfirðingafélagið stóð þar fyrir. Þar hafði ekki komið rigningardropi úr lofti allan daginn, en hann blés hraustlega að norðan og eins og staðkunnugir vita þá skín sólin ekki á tjaldbúa við Laugarvatn eftir kl. 19:30, þannig að það var kalt. En gleðin og vináttan sem skein úr andlitum tjaldbúa (eða réttara sagt felli- og hjólhýsabúa .ætli Geir viti þetta?) hlýjaði okkur inn að hjartarótum. Þarna eyddum við notalegri kvöldstund með frábæru fólki og rifjuðum upp gömul kynni frá æskuslóðum.
Þarna var t.d. Ásta Sínu, sem er systir Báru Ingimars, Magga Sínu, Fribbu Ingimars, Sigga Sínu og Gumma Ingimars og Rögnu Sólberg. Þarna var líka Einsi Óla, sem er m.a. bróðir tvíburanna Ella Gunnu Valda og Óla Óla. Ekki fundum við Maju Helgu Maju, sem er systir Hebbu og Ægis Hallbjörns., en ég nefni þetta sem dæmi um þá umræðu sem kom upp, þ.e. hvernig börnin voru annað hvort kennd við föður eða móður þótt um alsystkini væri að ræða.
Við Ásta eyddum svo nóttinni á Hótel Evu og eftir góðan morgunverð, sem dróst fram eftir degi í góðu spjalli við hótelhaldara, og alltof stuttu stoppi hjá Hrönn eðalbloggvinkonu, drifum við okkur aftur á svæðið. Þar hafði heldur betur bæst í hópinn og er talið að hátt í 200 Súgfirðingar og vinir þeirra væru á staðnum.
Þarna voru t.d. 8 krakkar úr ´48 árgangi ásamt mökum og afleggjurum. Við vorum 6 úr ´52 árgangi, en náðum því ekki að hittast sem hópur, því sumir voru bara að keyra í gegn eins og sagt er. Eyrún (af Hallbjarnarætt, Haraldur minn!) hafði t.d. komið í heimsókn meðan við Ásta vorum ennþá að drolla niður á Selfossi. Beggi kom aðeins við og við Ásta náðum að smella á hann kossi og þar sem við fermingarsystur, ég, Ásta og Helga Stefáns, sátum og spjölluðum yfir kaffibolla kom ungur maður og smellti kossi á kinn okkar systra. Á svona mótum kyssir maður alla og spyr svo: Hver ert þú nú aftur? Það gerði ég í þessu tilviki og varð að algjöru athlægi. Þarna var þá komin Liljar fermingarbróðir ásamt dóttursyni sínum Kristófer Liljari. Þeim stutta fannst nú alveg nóg um hvað afi gamli þurfti að kyssa margar kellingar.
Undirbúningsnefnd Sumarhátíðar 2008 stóð sig með miklum ágætum. Þarna var farið í ýmsa leiki og keppt í þrautum. Allir sem tóku þátt fengu medalíur og var enginn skilin útundan. T.d. mætti sonarsonur minn Róbert Skúli (Haraldur, pabbi hans er Skagamaður af Súgfirskum ættum!) í smáheimsókn á svæðið með foreldrum sínum, fór í kollhnís og fékk medalíu!
Eftir skemmtilegan dag í góðra vina hópi, lögðum við Ásta íann og vorum komnar í okkar eingin rúm á skikkanlegum ömmutíma.
Ég er ekki myndavélavædd, þannig að myndþyrstir lesendur geta farið inn á heimasíðu Súgfirðingafélagsins, http://www.sugandi.is og skoðað herlegheitin eftir nokkra daga.
Það má eiginlega segja að þarna hafi ég fengið forsmekkinn af því, sem ég mun upplifa á Súgfirskri Sælu, en þangað ætla ég að mæta eftir rúma viku.
Bloggvinum mínum þakka ég innlit og kveðjur við síðustu færslu.
Að lokum vil ég enda á vísu með texta eftir Sr. Jóhannes Pálmason, sem Súgfirðingar af nokkrum kynslóðum syngja alltaf þegar þeir koma saman:
Gamla fatan.
Hve ljúft er í hillingum liðinna daga
Að líta þig bernskunnar dýrlegu slóð.
Hinn blómgvaða hvamm undir laufskógar leiti
Þar lágreisti bærinn hans föður míns stóð.
Hið sólgyllta vatn þar sem vindmillan rumdi
Hinn veðraða klett þar sem lækurinn flaug
:,: og fjárhúsið, hlöðuna, fjósið og brunninn
og fötuna gömlu, sem hékk þar í taug:,:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.6.2008 | 16:54
Góða helgi!
Ég er að fara í ferðalag. Hef varla farið út fyrir bæjarmörk stór-Reykjavíkursvæðis síðan í fyrra sumar. Nú er ferðinni heitið austur fyrir fjall (skjálftasvæðið) að hitta gamla og nýja vini af Súganda kyni. Búin að pakka, allt klárt og er með 1 stk. sítrónupressu í farangri.
Set hér inn auglýsingu frá Súgfirðingafélaginu til áminningar fyrir þá sem hafa gleymt þessum merka viðburði:
Sumarhátíð Súgfirðingafélagsins verður haldin um helgina á tjaldsvæðinu að Laugarvatni 27-29 júní en Súgfirðingurinn Guðmundur Hermannsson og Bryndís Einarsdóttir kona hans sjá um tjaldsvæðið. Um er að ræða fjölskylduskemmtun þar sem ungir og aldnir hittast og eiga góðar stundir í söng og leik. Farið verður í ýmsa leiki t.d. boðhlaup, reiptog, pokahlaup og fótbolta. Tjaldsvæðið er rúmgott og tilvalið að slá upp gamla tjaldinu eða mæta með fellihýsið, tjaldvagninn eða hjólhýsið á staðinn og ekki gleyma góða skapinu. Aðgangseyrir inná tjaldsvæðið er kr 500 pr mann fyrir 13 ára og eldri.
Laugarvatn er fjölskylduvænn staður þar sem boðið er uppá margvíslega þjónustu og afþreyingu. Á staðnum er verslun, veitingahús, sundlaug, golfvöllur og einnig ágæt veiði í ám og vötnum í grenndinni. Einnig er stutt til Gullfoss og Geysis og á fleiri sögustaði.
ATH að þeir sem kunna á hljóðfæri t.d. gítar, munhörpu eða harmonikku eru eindregið hvattir til að mæta með þau á staðinn og taka þátt í fjörinu.
Sjáumst eldhress um helgina og munið að allir vinir og vandamenn eru velkomnir.
Söngbók og armband er selt á kr. 300
Sumarhátíðarnefnd Súgfirðingafélagsins.
Við Ásta æskuvinkona (og fermingarsystir) ætlum ekki að tjalda, þekkjum eigin skrokk betur en það. Höfum fengið vilyrði fyrir gistingu út á Selfossi og ætlum að nýta okkur það. Hef fregnað að "fallegur maður" gangi þar laus og mun ég gera mitt besta til að finna það fyrirbæri.
Ég hef litlar áhyggjur af "skjálftum" en vegna hlýnunar jarðar er víst vissara að vera við öllu búin, þannig að ég hef með mér sólarvörn......og kannski smávegis deyfilyf því ég er ekki með byssuleyfi .Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.6.2008 | 16:29
Heilabrot!
Dagarnir hafa nú ekki verið notaðir til mikillar tölvunotkunar á þessum bæ undanfarið. Veðrið hefur verið yndislegt og garðar vinanna hafa verið nýttir til hins ýtrasta.
Þegar heim er komið tekur sófinn við hlassinu og heilinn fær hvíld.....allavega það litla, sem ennþá starfar. Verð að fara að þjálfa hann upp aftur (heilann sko), svo ekki fari fyrir mér eins og kananum, sem fékk þennan úrskurð hjá sínum lækni:
I am your Doctor. Sorry to inform you that you have a brain problem. Your brain is in 2 parts... left, and right. The left part has nothing right in it and the right has nothing left in it.
Sendi ykkur öllum heilhuga sumarkveðjur! (sko, þetta gat ég).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.6.2008 | 16:10
Jafnréttisbaráttunni er ekki lokið!
Ég man eftir myndum í gömlum albúmum heima hjá mér, þar sem konur á Suðureyri voru að gera sér glaðan dag, klæddar í spariföt og þá flestar í íslenskum búning. Ein myndin var af skrúðgöngu með fánabera í broddi fylkingar og á öðrum myndum mátti sjá þær í einhverjum hringdansi eða sitjandi í grasinu með nestið sitt.
Þessar myndir voru teknar þann 19. júní rétt fyrir miðja síðustu öld, sennilega í kringum 1930 eða 1940.
"Árið 1882 fengu konur í fyrsta skipti kosningarétt á Íslandi. Þessi kosningaréttur var þó afar takmarkaður og hljóðaði upp á að ekkjur og aðrar ógiftar konur sem sátu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar fengu kosningarétt í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum. Þessi réttur gilti fyrir konur sem voru eldri en 25 ára og honum fylgdi ekki kjörgengi. Það skal tekið fram að vinnukonur áttu sig ekki sjálfar og voru því mjög fáar konur sem gátu nýtt sér þennan kosningarétt.
Árið 1909 voru samþykkt lög um kosningarétt og kjörgengi í málefnum hreppsfélaga og kaupstaða. Í þessum lögum kom m.a. fram að konur fengju kosningarétt ef þær hefðu lögheimili á staðnum, óflekkað mannorð, væru fjár síns ráðandi, stæðu ekki í skuld fyrir sveitarstyrk og greiddu gjald í bæjarsjóð eða hreppsjóð. Giftar konur höfðu einnig kosningarétt og kjörgengi hafði hver sá sem hafði kosningarétt og var ekki vistráðið hjú. Í þessum lögum kom einnig fram að konur mættu skorast undan kosningu en á þessum tíma var hægt að kjósa hvern sem var og karlar máttu ekki skorast undan kosningunni.
Árið 1915 fengu konur og vinnuhjú, 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Aldursmarkið átti að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Lögunum var þó breytt eftir 5 ár því árið 1920 fengu konur og vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur." (tekið úr Vikibókunum, frjálsa kennslubókasafninu).
Ein af konunum á myndum, sem ég talaði um hér að ofan var amma mín, Sigríður Jóna Guðnadóttir. Hún var fædd þann 31. október árið 1883 og hefur því verið 32 ára, þegar konur fengu fyrst kosningarétt til Alþingis.
Hún lifði það ekki að sjá konu kjörna sem forseta Íslands, og ekki heldur að kvenafkomendur hennar næðu sér í háskólamenntun.
Margt hefur áunnist í jafnréttisbaráttunni en ekkert af því kom af sjálfu sér, það er á hreinu.
Þessu rændi ég af bloggsíðu vinkonu minnar og vil enda mitt mál með því:
"Women do two-thirds of the world's work, receive 10 percent of the world's income and own 1 percent of the means of production."
- Richard H. Robbins, Global Problems and the Culture of Capitalism, (Allyn and Bacon, 1999), p. 354
Konur til hamingju með daginn, stöndum vörð um áunnin réttindi og sýnum formæðrum okkar þá virðingu að halda baráttunni áfram þar til fullu jafnrétti er náð!
Jafnréttisbaráttunni langt í frá lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.6.2008 | 14:01
Sjálfstæði/efnahagur!
Hvers virði er sjálfstæði þjóðar, þeim einstaklingum, sem ekki geta framfleytt sér og sínum?
Þegar stórt er spurt, verður fátt um svör.
Jón Sigurðsson var baráttukarl, sem barðist fyrir réttlæti og efnahagslegu sjálfstæði Íslensku þjóðarinnar. Hann er án vafa einn eftirminnilegasti tímamótamaður íslenskrar sögu, fæddist á Hrafnseyri í Arnarfirði 17. júní 1811 og ólst þar upp til 18 ára aldurs.
Í dag halda Íslendingar upp á sjálfstæði þjóðarinnar á fæðingardegi þessa merka manns og er það vel en töluvert vantar ennþá upp á að við getum haldið upp á efnahagslegt sjálfstæði allra Íslendinga.
Til þess að svo geti orðið þurfa lágmarkslaun og almannatryggingabætur að taka mið af raunverulegri framfærsluþörf, þess vegna þarf að vera til opinber og viðurkennd neysluviðmiðun, sem ákvarðar þann framfærslugrunn sem þarf til að einstaklingar geti lifað lífinu með reisn.
Í dag lifa allt of margir Íslendingar undir fátæktarmörkum. Fátækt er ljótur blettur á okkar þjóðfélagsmynd, sem út á við sýnir ríkidæmi í þotuliðs glansmynd. Fyrir nokkrum misserum síðan kom út skýrsla frá OECD, þar sem fram kom að ekki færri en 5000 íslensk börn lifðu við aðstæður undir fátæktarmörkum. Það var á góðæristímum. Hvað verða þessi börn mörg í "hallærinu", sem margir segja að sé veruleiki dagsins í dag?
Þetta er mitt innlegg í baráttuna um efnahagslegt sjálfstæði allra Íslendinga!
Fátækt er smánarblettur hjá ríkri þjóð og við því þarf að bregðast.
Vér mótmælum allir sinnuleysi Íslenskra stjórnvalda, sem láta þetta viðgangast.
Annars bara allt í góðu, en mikið vildi ég geta eytt þessum fallega degi á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, að Hrafnseyri við Arnarfjörð í góðu yfirlæti staðarhaldarans Valdimars Jóns Halldórssonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.6.2008 | 19:50
"Séð og Heyrt" upplifað og reynt!
Ég var að passa Ericu Ósk (1 árs) í morgun. Hún er búin að vera lasin litla skinnið en er vonandi að hressast.
Morguninn var ljúfur, mikið knúsað og svo var hún dugleg að dunda sér.
Pabbinn Jón Eric (28) kom svo heim í hádeginu svo amman (55) fór heim og lagði sig, ekki af því hún væri neitt rosalega þreytt, bara einhver dásamleg leti, sem kemur sundum yfir mann.
Þetta er nýleg mynd af þeim Jóni Eric og Ericu Ósk að gefa öndunum við Reykjavíkurtjörn brauð...eða það var allavega ætlunin, en Ericu Ósk fannst brauðið bara ágætt.
Seinni partinn komu svo feðgarnir Ómar Daníel (25) og Róbert Skúli (3ja) í heimsókn til ömmu, en mamman, Guðrún (29) er í Þýskalandi svo Róbert ? (?) gæti komið til Íslands og hjálpað strákunum okkar í mikilvægasta landsleik ever á sunnudaginn. (það er annarra að skrá þá sögu alla, kemur væntanlega í Séð og Heyrt!).
Heimsókn feðganna var mér dýrmæt,því loksins varð trúverðugleiki minn ekki lengur dregin í efa. Þannig er mál með vexti að við Róbert Skúli vorum (og erum) einlægir aðdáendur Magna Ásgeirssonar (?) eftir velgengni hans í sjónvarpsþáttunum Rockstar SuperNova, en á þeim tíma var Róbert Skúli ekki orðin 2ja ára. Ég held að foreldrar barnsins hafi haft mig grunaða um að smita drenginn af einhverri Magna dýrkun þegar ég sagði þeim að hann vildi endalaust hlusta á Magna í tölvunni hjá mér og þau gáfu mér svona vantrúar svip og ég sver það ég sá að þau glottu, þegar að þau héldu að ég sæi ekki til. Reyndar var drengurinn orðin svo klár á ömmutölvu að hann var farin að finna hitt og þetta á U-Tube í gegnum tónlistarbönd Magna! Á tímabili fór hann beint inn á tónlistarmyndbönd með Mika eftir (alltof stutta viðkomu hjá Magna) og hlustaði á Grace Kelly eða var það Lollypop, alla vega ekki tónlist fyrir ömmu smekk.
Ég ákvað því að taka mig á í ömmuhlutverkinu og þrátt fyrir ítrekaðar óskir Róberts Skúla um að fá að hlusta á Magna í tölvunni, lagðist ég í bókalestur með barninu og hef haldið mig við þá iðju í tæpt ár, það hefur gengið ljómandi vel og ekki er langt í að hann verði stautlæs (hann er svo klár).
En í dag, þegar þeir feðgar komu í heimsókn og amma hafði lesið smávegis með honum, bað hann, allt í einu (í viðurvist pabba síns) um að fá að hlusta á Magna í tölvunni!!! Yes! Ég horfði náttúrulega sigri hrósandi á soninn og stuttu síðar hljómaði Magna Creep og Róbert Skúli tók undir: fo æma kíp!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
10.6.2008 | 23:38
Akið varlega!
Stundum nennir maður bara ekki að blogga og við því er ekkert að gera.
Ákvað samt að láta vita af mér og senda frá mér einn "laufléttan".
Kona ein var að steikja egg handa sínum heittelskaða eiginmanni. Allt í einu ryðst bóndinn inn í eldhúsið og hrópar:
"Varlega varlega...! Settu meira smjör!
Guð hjálpi mér...! Þú ert að steikja Of mörg egg í einu.
OF MÖRG! Snúðu þeim! SNÚÐU ÞEIM NÚNA!"
"Við þurfum meira Smjör. Guð minn góður! VIÐ ÞURFUM MEIRA SMJÖR!
Eggin munu festast!" "Varlega...VARLEGA!
Ég sagði VARLEGA!
Þú hlustar aldrei á mig þegar þú eldar! ALDREI! Snúðu þeim! Drífðu þig! Ertu geggjuð!
Ertu búin að tapa glórunni? Ekki gleyma að salta eggin.
Þú gleymir alltaf að salta. Nota salt.
NOTA SALT! S A L T!"
Konan horfði á hann og sagði:
"Hvað er eiginlega að þér?
Heldur þú virkilega að ég kunni ekki að steikja tvö egg?"
Eiginmaðurinn svaraði rólega,
"Mig langaði bara að leyfa þér að finna hvernig mér líður þegar ég er með þig í bílnum."....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.6.2008 | 11:04
A.la. Stöð 2
Úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, undirrituðum á Þingvöllum fyrir rétt rúmu ári:
"Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta"
Ekki fór mikið fyrir efndum á þessari "yfirlýsingu" í nýafstöðnum samningum við sjúkraliða eða eflingarstarfsfólk í umönnunarstörfum. 10 mánuðir í næstu samninga og kjörtímabil líður.
Hjúkrunarfræðingar þið eigið leik, ég styð ykkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.6.2008 | 13:44
Á meðan ég man!
Ég heyrði í Eyrúnu fermingarsystir á fermingarafmælisdaginn okkar. Það var gaman. Okkur kom saman um að það væri vel þess virði að rifja upp þennan tíma, því skemmtilegur var hann og breytingar hafa orðið miklar síðan þá.
Það var fríður hópur nýfermdra ungmenna, sem stillti sér upp fyrir myndatöku þann 29. maí árið 1966. Myndasmiðurinn var sóknarpresturinn okkar, Sr. Jóhannes Pálmason.
Mikið svakalega er tíminn fljótur að líða, ég man þennan dag eins og þetta hafi bara gerst í gær! Ekki alveg í smáatriðum en svona nokkurn vegin, enda er það fullsannað að gamlar minningar tolla lengst!
Að morgni þessa dags, mættu þær heim til mín vinkonurnar og frænkur mínar, þær Gunna Stína og Sigga Óskars og túberuðu á mér hárlubbann og fundu hvíta gerviblóminu stað. Ég eins og alsiða var á þessum tíma (og er kannski enn), hafði safnað hári í heilt ár fyrir fermingargreiðslu!
Síðan var farið að klæða sig í fermingarskrúðann, allt nýtt yst sem innst. Klæddist mínum fyrsta brjóstahaldara, þótt lítið færi fyrir brjóstunum, en kjóllinn, sem mamma hafði saumað á mig, var náttúrulega fullorðins með þar til gerðum brjóstasaumum og svo var jú verið að taka okkur í fullorðins manna tölu!
Kjóllinn var úr hvítu satínefni og klæddur græn/blárri blúndu með síðum blúnduermum og náði niður á hné (stytti hann skömmu síðar um 15 cm, þegar mamma sá ekki til). Skórnir voru að sjálfsögðu hvítir með lágum hælum. Fermingarkápan mín var brúnyrjótt, sem var frekar svona óvenjulegt fyrir fermingarkápurnar þetta árið, því ég man að hinar stelpurnar voru klæddar kápum í öllum regnbogans litum, en laxableiki og sjógræni liturinn var æði áberandi og eftirminnilegur að sama skapi.
Eins og fram kom í síðustu færslu, hófst ferðalagið að kirkjunni okkar í félagsheimilinu, þar sem við klæddumst kirtlunum og við stelpurnar settum hvítar slæður um hálsinn og settum upp hvítu fermingarhanskanna. Það eina sem vantaði upp á var blæja, svo ekki sæist í neitt bert hold.
Ég man lítið eftir boðskap dagsins í predikun Sr Jóhannesar, enda eflaust haft hugann við væntanlegar fermingargjafir, en ég man eftir einhverju flissi í strákunum, þegar messuvíninu var útdeilt í altarisgöngunni.
Veislan á eftir var flott, fjölskyldan og góðir vinir mömmu og pabba voru í aðalveislunni, en eins og mömmu var von og vísa, þá mátti aldrei skilja neinn útundan, þannig að daginn eftir kom allt verbúðafólkið, sem aðallega voru Færeyingar.
Gjafirnar voru staðlaðar á þeim tíma: Gullúr frá mömmu og pabba, hamrað silfurarmband frá Örnólfi frænda og fjölskyldu, silfurhálsmen með íslenskum steini frá Pöllu frænku og fjölskyldu, undirkjólar, baby doll náttföt og sokkabuxur frá hinum ýmsu ættingjum og vinum. Agfa myndavél frá Begga Ara og fjölskyldu og Biblíu frá Veigu frænku. Einhverja peninga fékk ég en man ekki hvað ég gerði merkilegt við þá. Sjálfsagt hafa þeir dugað eitthvað fram á sumarið og nýst vel í skólaferðalaginu, sem farið var í þremur vikum seinna til Akureyrar.
Að kvöldi annars dags í Hvítasunnu fórum við svo á fyrsta fullorðinsdansleikinn okkar, því að á þessum árum voru almennir dansleikir úti á landsbyggðinni, bannaðir innan fermingar!
Sjómannadagurinn hefur svo væntanlega verið viku seinna og við fermingarsystur höfum örugglega verið langflottastar við hátíðahöldin heima á Suðureyri þann daginn og margar okkar nýklipptar a.la. Ella Giss!
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Eldri færslur
- Júní 2015
- Ágúst 2014
- Apríl 2014
- Ágúst 2013
- Maí 2013
- Febrúar 2013
- Desember 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Bloggvinir
- sudureyri
- schmidt
- vestfirdingurinn
- asthildurcesil
- holmdish
- hallibjarna
- jenfo
- hross
- hronnsig
- rognvaldurthor
- iaprag
- larahanna
- svanurg
- hildurhelgas
- milla
- ragnhildur
- jyderupdrottningin
- birgitta
- jogamagg
- beggita
- ammadagny
- steindora
- jonaa
- gudrunjona
- faereyja
- roslin
- liljabolla
- lehamzdr
- gurrihar
- helgamagg
- gledibankinn
- formosus
- gerdurpalma112
- silfri
- raksig
- rutlaskutla
- annaragna
- sylviam
- skessa
- hehau
- ringarinn
- kreppan
- don
- heidistrand
- korntop
- katrinsnaeholm
- danjensen
- joninaros
- tara
- kruttina
- manisvans
- valgeirskagfjord
- rannveigh
- emm
- olinathorv
- christinemarie
- bubot
- ksh
- jonthorolafsson
- skordalsbrynja
- kaffi
- icekeiko
- lillagud
- wonderwoman
- jonerr
- stinajohanns
- saedishaf
- himmalingur
- bjarnihardar
- katan
- gloppa
- helgigunnars
- strunfridur
- annakr
- credo
- fannygudbjorg
- lucas
- sveitaorar
- jakobk
- disdis
- sirri
- finni
- brahim
- heidathord
- sigrunzanz
- draumur
- naflaskodun
- stjornlagathing
- valdimarjohannesson