Leita í fréttum mbl.is

Lyf og bætiefni í ísl. náttúru!

Ég er svo alvön því að fólkið í kringum mig er ekki að velta sér upp úr sömu hlutum og ég.  Við Völlu systir ræði ég t.d. afar sjaldan um pólitík.  Á vinnustað mínum reynum við að hafa pólitíska umræðu í lágmarki, skjólstæðinga okkar vegna.  Þess vegna var bloggið eiginlega himnasending fyrir mig, þar get ég pælt og spegulerað og þeir lesa sem viljaSmile

Í dag hefði ég virkilega viljað rasa út og tjá mig um ósmekklega ræðu sem flutt var á pólitískum vettvangi...en ég er að hugsa um að láta það vera og leyfa ykkur sem hér komið við að lesa dúndurgóða grein eftir Völlu systur, sem birtist í Morgunblaðinu í gærSmile

Marblettir eða krækiberjasaft

valla_systir.jpgÍ mínu ungdæmi tíðkaðist það að hafa til morgunverðar hafragraut, slátur, þorskalýsi og krækiberjasaft.  Þorskalýsið var fengið í lýsisbræðslunni á staðnum, haframjölið innflutt en slátrið og berjasaftina bjó mamma til með dálítilli aðstoð annarra heimilismanna.  Ég minnist þess ekki að hafa verið hlaðin marblettum á mínum yngri árum þrátt fyrir marga byltuna og pústrana. 
     Það verður að segjast eins og það er að ekki viðhélt ég þessari morgunverðarhefð þau 25 ár sem ég var húsmóðir.  Reyndar var hafragrauturinn til staðar og lýsið fyrst um sinn en svo lagðist þetta af aðallega vegna þess að annað heimilisfólk hafði ekki sama smekk og ég.  Ekki var verið að huga að hollustunni eins og algengt er nú á tímum.  Reyndar hefur mér alltaf þótt hafragrautur góður og jafnvel veislumatur með aðalbláberjum.
     Undanfarin ár hef ég ekki mátt reka mig smávegis í þá var kominn þessi stóri marblettur og stundum margir á sama tíma enda þótt ég reyndi að fara gætilega.  Fólki sem umgengst mig þótti þetta afar hvimleitt því það gat verið að einhver teldi að ég væri beitt líkamlegu ofbeldi, en því var ekki til að dreifa.  Ég var orðin nokkuð leið á þessu og spurði heimilislækninn minn hvað ég ætti að gera til að laga þetta.  Hann mælti með bætiefnum sem ég gæti keypt og það gerði ég.  En þessi bætiefni eru enn uppi í skáp hjá mér því ég er ekki dugleg að bæta við mig pillum. 
     Það undarlega gerðist á haustdögum að marblettirnir hurfu hver af öðrum og reyndar líka lítill rauður blettur sem var fyrir neðan aðra augnabrúnina.  Ekki hef ég breytt miklu í mínum matarvenjum seinni ár en síðsumars fór ég til Bakkafjarðar að heimsækja vini mína.  Þetta var á berjatínslutímanum.  Ég kíkti eftir aðalbláberjum þar sem ég vissi um nokkra staði þar sem þau uxu en þó ekki í þeim mæli sem ég á að venjast frá mínum heimaslóðum í Súgandafirði.  Erfiðlega gekk mér að finna nægilega mikið af aðalbláberjum enda rigning og ég full snemma á ferð.  Hins vegar var svo mikið af krækiberjum að ég hafði aldrei séð annað eins, allt svart.  Ég tíndi því krækiber fyrir vinkonu mína sem ekki komst sjálf til berja.  Við bjuggum til þessa líka fínu krækiberjasaft sem er ekki verri en fínasti líkjör þótt óáfeng sé og einmitt betri fyrir það.  Ég fékk með mér nokkrar flöskur sem ég drakk dálítið af daglega með hafragrautnum.  Reyndar borðaði ég líka aðalbláberin sem ég tíndi og keypti mér nokkrum sinnum til viðbótar í Vínberinu á Laugarveginum, þegar ég var á heilsubótargöngu. Vinkonur mínar, sem nýttu sér þetta mikla berjaár líka hafa gaukað að mér flösku og flösku, þegar ég hef dásamað hollustuna   Þetta er eina breytingin á mínu mataræði um árabil.  .
     Af framansögðu ætti að vera ljóst að ég þakka krækiberjasaftinni hvarf marblettanna.  Því legg ég til að áhersla verði lögð á rannsóknir vegna hollustu hennar.  Vitanlega gæti tilgáta mín verið röng því að ég var í raun með tvær breytur, krækiberjasaft og aðalbláber.  Sem fyrrverandi náttúrufræðikennari veit ég að breytan þarf að vera ein í hverri tilraun, til þess að eiga möguleika á réttri niðurstöðu, en þess ber að gæta að þetta var ekki vísvitandi tilraun heldur afleiðing af berjaáti. 
     Ef hægt verður að færa sönnur á að krækiberjasaft eða villt íslensk ber séu jafn áhrifarík og ýmis innflutt bætiefni hve mikið gæti þjóðarbúið hagnast ef þau væru nýtt sem skildi?  Vöruskiptajöfnuðurinn mundi líklega lagast til muna enda virðist mér ekki veita af því núna frekar en oft áður.

Valbjörg Jónsdóttir

Birt með leyfi höfundarSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fróðleg grein hjá systur þinni. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.3.2009 kl. 23:40

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

járn og C vítamín gera gæfumuninn

Hólmdís Hjartardóttir, 28.3.2009 kl. 23:41

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

...og hvort tveggja fæst úr ísl. berjum

Sigrún Jónsdóttir, 28.3.2009 kl. 23:50

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Jahá þessu hef ég alltaf haldið fram, mamma gaf okkur alltaf krækiberjasaft eftir lýsinu á morgnana. Við fórum hvert sumar og fylltum fleiri lítra brúsa og dunka af berjum og mamma saftaði þau. Svo fengum við fjallagrasate hjá ömmu sem fór lengi vel á hverju ári vestur til að tína þau. Allt til í náttúrunni ef við bara kunnum að nota það. Á reyndar bróður sem var að gefa út kokkabók fyrir jólin sem einmitt heitir Náttúran sér um sína. Þau systkyn okkar eru greinileg á réttri leið.

Rut Sumarliðadóttir, 29.3.2009 kl. 00:24

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég tek undi þetta & reyndar hafa rannsóknir sýnt að neysla á berjum hafa 'guðleg' áhrif á hina ýmsuztu sjúkdóma sem á á karla herja.

Ég tek sem dæmi, að einn ~sérstakur trönuberjasafi~ er seldur dýrum dómum í lyfjaverzlunum & háaldraður faðir minn var einn ákafur kaupandi að, því að það hjálpaði honum í baráttunni við sitt karllæga innanmein.

Núna fær karlinn krukku & krukku hjá mér af Árskógsskógar berjasultuhrati, komið á annað ár frá því að tilgátan var framsett, búin var til tilraun & fram er eiginlega komin sönnun.

Hann þarf ekki að vakna til að pizza um nætur.

Steingrímur Helgason, 29.3.2009 kl. 00:29

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Fróðlegt að lesa.  var einmitt að tala um mátt grasa í gær við vinkonu mína og ýmsar aðrar aðferðir til þess að ,,lækna" ýmis mein .  Oft hefur verið sagt að viðkomandi verði að vera móttækilegur og hafa trú á þessum lækninarmætti en svo er reyndar ekki. 

Ía Jóhannsdóttir, 29.3.2009 kl. 08:37

7 Smámynd: Auður Proppé

Mjög fróðleg grein, en ég er yfir mig fegin að þurfa ekki að borða hafragraut á morgnana og taka fljótandi lýsi, þrátt fyrir að ég elda hafragraut á hverjum morgni þá er það fyrir hundana.

Auður Proppé, 29.3.2009 kl. 10:00

8 identicon

Stórfróðleg grein hjá henni systur þinni!

Það þyrftu einhverjir aðilar að taka sig til og nýta þessa auðlind sem íslensku berin vissulega eru.

Kær kveðja

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 10:21

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Fróðleg grein.  Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.3.2009 kl. 11:11

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott að heyra þetta með krækiberjasaftina.  Ég tek alltaf lýsi á hverjum morgni og allir hér á þessu heimili.  Og á ég lýsinu margt að þakka.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2009 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband