15.7.2008 | 18:13
Hver vegur að heiman er vegurinn heim!
Síðasta vika hefur verið heilt ævintýri hjá mér og ömmustelpunni Kristrúnu Amelíu. Við lögðum af stað með Völlu stóru systir rétt fyrir hádegi þann 8. júlí s.l. Það var stoppað á tveimur bæjum í Dölunum og vinafólk Völlu heimsótt. Næsti viðkomustaður var rétt hjá Bjarkarlundi í sumarbústað Ástu Þórarins, æskuvinkonu og Eiríks mannsins hennar, þar áttum við góða stund í yndislegu umhverfi í góðum félagsskap þeirra hjóna og barnabarna þeirra. Svo var það Þorskafjarðarheiðin og Ísafjarðardjúpið með mörgu fjörðunum, en fallegir eru þeir nú samt. Ákváðum að taka smá krók og heimsækja Reykjanesskólann, gamla heimavistarskólann hennar Völlu, en þangað hafði ég aldrei komið áður. Reyndi að ímynda mér sleik staði Maju æskuvinkonu og Garðars og taldi mig finna nokkra ákjósanlega staði til þessháttar atlota unglinga. Við snæddum kvöldverð þarna, pöntuðum skyndimat (hefðum átt að bíða eftir fiskinum, sem í boði var) en þetta var í fyrsta skipti sem ég hef fengið skósóla í stað hamborgara.
Heim í Súgandafjörð vorum við komnar um kl. 21:30 um kvöldið. Það voru smá vonbrigði að þokan var eitthvað að þvælast þarna fyrir, þegar út úr vestfjarðagöngunum var komið, en það var LOGN. (Mynd: Ásthildur Cesil).
Þegar komið var út á Suðureyri var sæluhrollurinn samt á sínum stað og brosið okkar var komið til að vera. Við vorum komnar heim og næstu dagar voru eintóm Sæla.
Hin eiginlega dagskrá Sæluhelgarinnar hófst á föstudeginum í mjög góðu veðri, logn var og mjög hlýtt. Á meðan fullorðna fólkið fór í "þorpsgöngu" undir mjög svo skemmtilegri leiðsögn Jóa Bjarna, þar sem stiklað var á stóru um hin ýmsu hús og íbúa þeirra í gegnum tíðina, var farið með börnin í Skothólsgöngu, þar sem þau fengu nesti og svo viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í göngunni seinna um kvöldið.
Ég lærði ýmislegt í "þorpsgöngunni" hjá Jóa Bjarna. T.d. veit ég núna hvar "Hallbjarnar" fólkið átti heima áður en þau fluttu til Akraness og eins veit ég núna að hún mamma mín fæddist ekki í torfkofa eins og ég hef alltaf haldið, heldur í þrílyftu bárujárnsklæddu timburhúsi, sem stóð þar sem "Verkalýðshúsið" stendur núna! Þetta hefur verið algjör höll á þeirra tíma mælikvarða (1916) og ég hef ekki hugmynd um hvaðan ég fékk mína vitlausu útgáfu.
Kl. 18:00 byrjaði svo fólkið að streyma á "Sjöstjörnuna", sem er opið svæði í miðju þorpinu. Snorri Sturluson setti 21. Sæluhelgar hátíðina með formlegum hætti. Hann flutti m.a. mjög fallegt ljóð eftir Sturlu Jónsson, fv. hreppstjóra. Síðan tóku hátíðargestir sig til og grilluðu matinn sinn á flennistórum útigrillum, borðuðu (það voru jú borð fyrir alla), drukku og spjölluðu áður en haldið var í í hina ýmsu leiki.
Það var m.a. keppt í gjarðaskoppi og þarna er Dedda að gera sig klára.
Gjarðaskopp er náttúrulega einn af leikjum minnar kynslóðar, en hann lifir góðu lífi á Sæluhelgum. (Mynd: Róbert Schmidt).
"Fjárdráttur" er nýr leikur en mjög skemmtilegur þegar hann er stundaður á Súgfirskan hátt. Sturla Gunnar, Samkaupsstjóri, sigraði "fjárdráttinn" með glæsibrag. (mynd: Róbert Schmidt)
Veiðimenn eru sagðir vilja rigningu. Mansaveiðimenn voru því ánægðir á laugardeginum, eina deginum sem virkilega rigndi og þá fór fram keppni í Marhnútaveiði. Marhnútunum er öllum gefið líf að keppni lokinni.
Hér eru ánægðir "veiðimenn" að lokinni keppni. Veitt eru verðlaun fyrir ýmislegt í þessari keppni. T.d. stærsta og minnsta mansann, mesta aflann og skrýtnustu veiðina, svo eitthvað sé nefnt. (Mynd: Róbert Schmidt).
Á laugardeginum var einnig vígður "útsýnispallur" til minningar um sjómannskonur í Súgandafirði. Frábær minnisvarði, sem Lilja Rafney Magnúsdóttir hannaði og átti hugmynd að. Minnisvarðinn fékk nafnið Markúsína, en það hét föðuramma Lilju. (mynd: Ásthildur Cesil).
Þegar setið er uppí þessum fallega útsýnispalli er útsýnið úr honum dásamlegt bæði út og inn fjörðinn. Á þessari mynd er horft út fjörðinn. (mynd: Ásthildur Cesil).
Á Sunnudeginum viðraði vel á hátíðargesti. Heilmikil dagskrá og mikið um að vera. "Erill" var á svæðinu en aldrei til vandræða. Þennan dag var t.d. keppt í "húsmæðra fótbolta" milli brottfluttra "húsmæðra" og "heima húsmæðra". Sleggjukasti karla og kvenna á öllum aldri og svo auðvitað Söngvarakeppnin. Mín dama, Kristrún Amelía tók þátt og stóð sig með mikilli prýði. Hún komst ekki á verðlaunapall í þetta skiptið og varð pínu sár fyrst á eftir.....allt gítarleikaranum að kenna, en svo jafnaði hún sig fljótlega og er harðákveðin í að "gera bara betur næst".
En mikið rosalega var hún flott á sviðinu, stóra stoltið hennar ömmu sinnar. (mynd: Ásthildur Cesil).
Á hverju kvöldi alla hátíðisdagana var síðan "opið hús" í FSÚ (Félagsheimili Súgfirðinga). Þar héldu Mansavinir uppi stanslausu fjöri langt fram á nótt og "Erill" gamli var langtíburtistan. Mansavinirnir, Ævar og Guðni í "söngham". (mynd: Róbert Schmidt).
Æskuvinkonurnar, sem allar eru á sextugsaldri, Sigrún, Eygló, Eyrún og Sóley Halla létu sig að sjálfsögðu ekki vanta og sungu þær og dönsuðu eins og þær væru aftur orðnar 18. (mynd: Róbert Schmidt).
Ég hef hér stiklað á stóru varðandi þessa góðu heimsókn mína "heim" til átthaganna. Meiri umfjöllun og myndir er hægt að nálgast á www.sugandi.is og hjá Ásthildi Cesil Þórðardóttur( asthildurcesil), minni kæru bloggvinkonu, sem gerði heimsókn sinni góð skil í bloggfærslu í gær.
Ég vil þakka öllum heimamönnum í Súgandafirði með Mansavini í broddi fylkingar fyrir frábæra skemmtun alla dagana. Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni á elju heimamanna og dugnaði við að koma þessum Sæludögum í framkvæmd ár eftir ár. 21. sæluhelgin heppnaðist fullkomlega. Samstaða heimamanna er aðdáunarverð. Svo vil ég koma því á framfæri við heimamenn að Suðureyri hefur aldrei verið snyrtilegri en hún er núna. Bæði stjórnendur fyrirtækja og einstaklingar hafa auðsýnilega lagt metnað sinn í að fegra í kringum sig. Til hamingju með Bláfánann Súgfirðingar, hann er verðskuldaður.
Við ferðalangarnir fórum svo vesturleiðina til baka. Komum við hjá Valda og Lóu á Hrafnseyri en Valdi frændi hafði lánað okkur húsið sitt heima á Suðureyri til að dvelja í þessa daga sem við vorum þar. Ástarþakkir fyrir það kæri frændi. Arnarfjörðurinn skartaði sínu fegursta í logni og sól meðan við dvöldum þar. Kristrún Amelía var að sjá fegursta foss í heimi í fyrsta sinn (Dynjandi/Fjallfoss) og svo fékk hún úrdrátt úr sögu Jóns Sigurðssonar frá staðarhaldaranum Valda frænda, á yfirferð sinni um gamla bæinn. Af öllu því sem fyrir augu bar var hún hrifnust af skódjöflinum, sem er spýtufjöl, sem notuð var til að klæða sig úr skóm í gamla, gamla, gamla daga.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst vesturleiðin flottari en djúpið. Leiðin frá Hrafnseyri til Bjarkalundar er HRIKALEGA flott í orðsins fyllstu merkingu.
Eldri færslur
- Júní 2015
- Ágúst 2014
- Apríl 2014
- Ágúst 2013
- Maí 2013
- Febrúar 2013
- Desember 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Bloggvinir
- sudureyri
- schmidt
- vestfirdingurinn
- asthildurcesil
- holmdish
- hallibjarna
- jenfo
- hross
- hronnsig
- rognvaldurthor
- iaprag
- larahanna
- svanurg
- hildurhelgas
- milla
- ragnhildur
- jyderupdrottningin
- birgitta
- jogamagg
- beggita
- ammadagny
- steindora
- jonaa
- gudrunjona
- faereyja
- roslin
- liljabolla
- lehamzdr
- gurrihar
- helgamagg
- gledibankinn
- formosus
- gerdurpalma112
- silfri
- raksig
- rutlaskutla
- annaragna
- sylviam
- skessa
- hehau
- ringarinn
- kreppan
- don
- heidistrand
- korntop
- katrinsnaeholm
- danjensen
- joninaros
- tara
- kruttina
- manisvans
- valgeirskagfjord
- rannveigh
- emm
- olinathorv
- christinemarie
- bubot
- ksh
- jonthorolafsson
- skordalsbrynja
- kaffi
- icekeiko
- lillagud
- wonderwoman
- jonerr
- stinajohanns
- saedishaf
- himmalingur
- bjarnihardar
- katan
- gloppa
- helgigunnars
- strunfridur
- annakr
- credo
- fannygudbjorg
- lucas
- sveitaorar
- jakobk
- disdis
- sirri
- finni
- brahim
- heidathord
- sigrunzanz
- draumur
- naflaskodun
- stjornlagathing
- valdimarjohannesson
Athugasemdir
Gott að þú skemmtir þér vel. Amma mín var úr Mjóafirði svo í mér rennur dálítið vestfirskt blóð.
Hólmdís Hjartardóttir, 15.7.2008 kl. 18:31
Takk Hólmdís. Hvaða Mjóafirði? Í Ísafjarðardjúpi eða þessum á Vesturleiðinni?
Sigrún Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 18:34
Þetta hefur verið gaman. Ekkert jafnast á við gamlar heimaslóðir og góða vini. Veistu ég hef aldei komið þarna vestur. Verð að bæta úr því fljótlega en tek með mér nesti, hætti ekki á að verða að gæða mér á skósólum.
Ía Jóhannsdóttir, 15.7.2008 kl. 18:51
Ía mín þú þarft ekkert að hafa með þér nesti vestur á firði, ég mátti bara ekki vera að því að bíða eftir "matmálstíma" þar sem boðið var uppá ljúffengan fiskrétt, ég var að flýta mér "heim".
Sigrún Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 19:01
Botni í Mjóafirði við Djúp.
Hólmdís Hjartardóttir, 15.7.2008 kl. 19:39
Hrönn Sigurðardóttir, 15.7.2008 kl. 20:07
Æi hvað ömmustelpan er mikið sætabrauð
Takk fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.7.2008 kl. 21:26
Þetta er flott og ítarleg ferðasaga hjá þér Sigrún. Ég sé að þú hefur komist að því hvar forfeður mínir bjuggu. Ég veit að mamma mín fæddist í húsi sem kallað var "Þvertum", þess vegna sögðum við alltaf við hana og afa þau væru svo þversum. Þetta hús var rifið einhvern tíma upp úr 1960. Þetta var timburhús og þegar afi Oddur Hall. og amma Gugga bjuggu þarna var saltfiskur verkaður á neðri hæðinni. Svo var það einhverntíma rétt fyrir 1930 sem afi Oddur og Sigurður bróðir hans settu fjölskyldurnar um borð í báta sína og sigldu á Akranes þar sem þeir báðir stunduðu útgerð í fyrstu en þegar Sementsverksmiðjan var tók til starfa 1958 fór afi að vinna þar. Þeir bræður keyptu eftir stríð tvo innrásarpramma sem voru notaðir við innrásina í Normandí. Þá ætluðu þeir að nota til að sigla yfir Hvalfjörð með bíla frá Hvítanesi að sunnanverðu og Katanesi, rétt innan Grundartanga. Sigurður dó hins vegar í þann mund er innrásarprammarnir komu til landsins og annar þeirra var lengi notaður í sementsflutninga milli Akraness og Reykjavíkur og fékk nafnið Ferja, hinn var notaður í varahluti í Ferjuna. - Þetta var svona söguskýring - Eru ekki annars ættingjar mínir þarna ennþá. Ég kom þarna fyrir 5-6 árum og fann enga. Þeir sem ég vissi nöfnin á voru í útlöndum. - Þessi Snorri Sturluson, getur hann ekki verið skyldur mér? - Þarf að ger mér ferð vestur aftur. Eini ættingin hér á Skaganum sem hefur lagt rækt við Suðureyri nú síðari ár er Guðbjörg frænka mín Róbertsdóttir.
Haraldur Bjarnason, 15.7.2008 kl. 22:45
Takk kærlega fyrir þetta innlegg Haraldur. Ég man eftir "þvertum", og Jói Bjarna sagði sögu þess í þorpsgöngunni (húsið stóð víst "þvert" á allar byggingarnar í kring. Það eru nokkrir af svokallaðri "Hallbjarnarætt" búsettir á Suðureyri. Snorri Sturluson (Ólafssonar) er giftur Erlu, sonardóttur Sturlu Jónssonar og Kristeyjar Hallbjarnar. Sólveig Leifsdóttir (Sigurðssonar-Oddssonar held ég) er þarna alltaf nokkra mánuði á ári og sonur hennar er búsettur þarna. Svo minnir mig að Vala og Valgeir Hallbjörnsbörn séu af þessum ættlegg. Allt er þetta sómafólk, sem gott er að þekkja. Um Sæluhelgina mætti svo fjöldi manns af Hallbjarnarætt á staðinn.
Jenný og Hrönn, ég þakka innlit og kveðjur.
Sigrún Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 23:04
Sæl Sigrún mín!
Ég fæ alveg sæluhroll eftir bakinu við að lesa ferðasöguna þína. Mikið rosalega hefði verið gaman að vera í Dýrafirðinum og kíkja yfir á hátíðina á Suðureyri.
En eins og ég sagði þér, þá vorum við á Sæluhelginni 2006 (það hefði verið gaman að rekast á þig). Það er svo fyndið, að á einni myndinni sem þú hefur tekið þá, sést í eitthvað af fjölskyldunni hennar Láru systur minnar.
En ég er alveg sammála þér, mér finnst "vesturleiðin" fallegri en "Djúpið" þó að það sé virkilega fallegt þar líka. Vestfirðirnir eru bara alveg ofboðslega fallegir, kyngimagnaðir og yndislegir.
Tengdapabbi er frá Rauðasandi, þangað hef ég aldrei farið, en langar mikið.
Sástu nokkuð Lárus frænda minn og Dóru?
Kær kveðja til þín, elsku vinkona
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 23:17
Sæl Ásdís mín og takk fyrir innlegg og kveðju. Ég sá hvorki Lárus né Dóru, en það er ekkert að marka, ég er búin að frétta af fullt af fólki, sem var þarna en ég hitti samt ekki....eða þekkti ekki aftur.
Sigrún Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 23:22
Nei Sigrún. Sólveig er dóttir Leifs sonar Sigurðar bróður Odds afa Hallsbörnssonar. Þarna sérðu Sigrún hvað ég veit mikið um Súgfirðinga þessa tíma. Mamma var dugleg að segja mér frá þessu og afi líka þegar ég var að byrja í blaðamennskunni og spurði hann um alla mögulega hluti.
Haraldur Bjarnason, 15.7.2008 kl. 23:27
...Hallbjörnssonar á þetta auðvitað að vera. Prófarkalesarinn og blaðamaðurinn ég...geri líka vitleysur!
Haraldur Bjarnason, 15.7.2008 kl. 23:29
Takk fyrir frábæra helgi mín kæra, ég er komin með "sixpack" í staðinn fyrir "björgunarhringinn" á maganum eftir allan þennan hlátur um helgina, sólin lét sjá sig í dag og veðrið alveg yndislegt.
Halldóra Hannesdóttir, 15.7.2008 kl. 23:53
Frábær ferðasaga og skemmtilega myndskreytt. Það fer ekki á milli mála að ferðin tókst vel og eftirminnileg. Er algjörlega sammála þér varðandi ,,vesturleiðina", hún er mun fallegri en Djúpið. Það má hins vegar til sanns vegar færa að á fáum stöðum er jafn mikil fegurð og á Vestrjörðum á öllum árstímum.
Ég sé að þú hefur komið við í Dölunum, auðvitað er mín forvitin að vita hvar það var
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.7.2008 kl. 00:11
Haraldur, þér yrði örugglega vel tekið af Súgfirðingum öllum, ef þú kæmir þar við og kynntir þig.
Halldóra mín, við höfum verið að "kommenta" hjá hvor annari á svipuðum tíma. Takk sömuleiðis fyrir frábæra daga "heima".
Takk fyrir Guðrún mín. Þar sem heimsóknirnar í Dölunum voru á vegum Völlu systur, var ég ekkert sérstaklega að leggja manna- eða bæjarnöfn á minnið. En fyrri staðurinn var hjá skólabróður hennar, sem býr í nýlegu litlu húsi ásamt konu sinni rétt hjá bæjarstæði sem er ekki langt frá Fellsenda og seinni bærinn var ekki langt undan og þar býr maður sem heitir Erlingur að mig minnir og hefur verið með hross en er að mestu hættur því núna. Ég get spurt Völlu nánar út í þetta á morgun.
Sigrún Jónsdóttir, 16.7.2008 kl. 00:29
Flott samantekt hjá þér Sigrún mín, fyllti í eyðurnar hjá mér. Og gaman að sjá að þú hefur notað myndirnar mínar. Takk fyrir yndislega viðkynningu mín kæra.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.7.2008 kl. 11:29
Sigrún mín yndislegt að lesa þessa færslu, sko það getur ekki annað en verið gaman á svona uppákomum, þegar allir koma saman og eru harðákveðnir í að skemmta sér, ekki skemmir að fá myndirnar hennar Ásthildar.
Ég fór í huganum með þér er þú fórst vestur og svo heim aftur, er búin að fara þetta oft og ég verð ætíð jafn undrandi yfir fegurðinni sem vestfirðir búa yfir.
Knús kveðjur til þín
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 16.7.2008 kl. 12:20
Æðislega færsla og gaman að lesa og skoða myndir hafðu það ljúft elskuleg
Brynja skordal, 16.7.2008 kl. 17:16
Ég þakka innlit kæru vinir
Ásthildur mín sömuleiðis, það var ljúft að hitta þig loksins og takk fyrir myndir
Hallgerður ég hlakka líka til að hitta þig og vonandi fljótlega
Knús á ykkur Milla mín og Brynja
Sigrún Jónsdóttir, 17.7.2008 kl. 00:36
Skemmtileg frásögn og myndir.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 17.7.2008 kl. 14:18
Þetta hefur aldeilis verið gaman. Flottar myndir. Ég sá fína mynd af þér á blogginu hjá Ásthildi. Falleg stelpan þín. Kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 17.7.2008 kl. 23:25
Hver vegur að heiman,
er vegurinn heim.
Og hamingju sjaldan þeir ná.
sem æða um í kapphlaupi við klukkuna,
og sjálfa sig,án þess að heyra eða sjá.
Söngur:Pálmi Gunnarson.
Magnús Paul Korntop, 22.7.2008 kl. 00:40
Já það má með sanni segja að hver vegur að heiman er vegurinn heim.
Takk fyrir skemmtilega helgi á Súgandacity, þetta var svo skemmtilegt
Ég var fyrir vestan út vikuna og síðan lá mín leið til Akureyrar þar sem ég er núna aðvisitera fólkið mitt sem býr þar, bara gaman og svo er landsmótskáta byrjað, var sett í gærkveldi.
Góðar kveðjur úr sólinni á Akureyri
Anna Bjarna (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.