Leita í fréttum mbl.is

Núpsskóli í Dýrafirði

Ég skrapp í mat til Hugrúnar vinkonu minnar í kvöld.  Við Hugrún vorum bekkjarsystur í heimavistarskólanum að Núpi í Dýrafirði í þrjá vetur á unglingsárum okkar.  Við urðum samt engar vinkonur á þeim árum, til þess var breytan sem skildi okkur að of mikil!

Ég var þorpari í orðsins fyllstu merkingu, frá litlu þorpi á miðjum vestfjarðakjálkanum.  Yndislegu 500 manna þorpi í fallegum firði, sem ég hef áður lýst hér á síðunni.  Ég var semsagt saklaus sveitastelpa, sem lék mér ennþá í “hverfu” (feluleikur okkar púkanna), “snú, snú” og “yfir”.  Varalitur var í mínum huga eitthvað sem “gömlu konurnar” settu á sig þegar þær fóru í kirkju eða á ball!

Hugrún var ”skvísa” frá Reykjavík.  Hún var ekta borgarbarn af Freyjugötunni.  Ekki veit ég hvernig leikir unglinga í 101 Reykjavík voru á þessum tíma, en Reykjavíkurunglingarnir voru okkur þorpurunum nokkuð forframaðri, bæði í klæðaburði, talsmáta og lífsreynslu!!

Ég man ekki hvort það var Hugrún eða Svala Ólafs, Sem nefndi það einhvern morguninn að hún hefði næstum því sofið yfir sig og hefði rétt náð að mála sig áður en hún kom í tímann og í framhaldi af því upplýsti þessi unga Reykjavíkurmær að út fyrir dyr færi hún ekki ómáluð, ekki einu sinni út í mjólkurbúð!!!

Mála sig!  Mjólkurbúð!  Vá hvað þær voru eitthvað MIKIÐ öðruvísi en við þorpspúkarnir og lifðu flóknu lífi!  Mjólkina fengum við sveitafólkið í brúsa heim að dyrum og kaupfélagið seldi bara eldrauða kerlingavaraliti á þessum tíma.

Þær, Reykjavíkurdömurnar, fengu snyrtivörur, nælonsokkabuxur, tyggjó og jafnvel sígarettur í pökkunum sem þær fengu að sunnan.  Við þorpararnir fengum harðfisk og suðusúkkulaði!

En þetta var nú bara fyrsta veturinn.  Við komumst fljótlega að því að við vorum allar svipaðar inn við beinið.  Við þorpararnir lærðum listina að setja á okkur ælæner, meik, kinna- og varalit.  Túbera hárið og heimasaumuðu buxurnar okkar urðu fljótlega líkari buxum Reykjavíkurdamanna.  Á þriðja vetri mátti varla sjá hver var ”þorpari” eða hver var ”borgari”.

Við vissum að þegar við færum til Reykjavíkur, ættum við að fara í Silfurtunglið og panta okkur grænan ”sjartrös” á barnum.  Breytan á milli okkar jafnaðist út, þorpararnir forfrömuðust en borgarbörnin ”róuðust”.  Í sumum tilfellum var það víst svo að Reykjavíkurunglingarnir voru ”sendir” á Núp til að ”róast” og læra.  En eitthvað var talið að borgarlífið truflaði viðkomandi unglinga frá hefðbundnu skólanámi.

Í huga okkar Hugrúnar voru árin að Núpi yndislegur tími, sem mótaði okkur mikið.  Fyrir hana var Núpsskóli örlagavaldur í hennar framtíð, þar sem hún kynntist sínum ektamaka þar.

Hugsa sér 16 ára á föstu til eilífðar og það gengur bara alveg glimrandi vel hjá þeim Hugrúnu og Benna tæpum 40 árum eftir að þau kynntust á Núpi.

Núpsskóli 1

Við Hugrún náðum loksins saman sem vinkonur árið 1976, þegar hún var orðin 2ja barna móðir í sveit (Borgarfirðinum) og ég var nýflutt heim til Íslands eftir nokkurra ára dvöl í Bretlandi.  Ég var komin með skilning á þankagangi borgaranna og hún var að upplifa ”gæði” dreifbýlis.  Við náðum saman í húmor og hugsun!  En Núpsskóli var okkar sameiginlegi ”grunnur”.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ha ha

Alveg er þetta yndisleg saga um heimavistina, næstum bara eins og ég upplifði þetta en ég fór nú heldur lengra úr þorpinu, alla leið á Laugarvatn en aðrir úr mínum árgangi fóru á Núp og Reykjanes.  Þetta var alveg yndislegur tími.  Eitthvað sem að unglingar í dag missa af.  En hvað  með það, það er yndislegt veður í dag, örugglega margir á skíðum eða að þeysast á sínum jeppum um fjöllin okkar. Kíki á síðuna þína af og til, gleymi oft að kvitta.  Ætla sennilega vestur á morgun,keyrandi og vera yfir páskana.  Hafðu það sem best.  Kveðja af Skaganum.

Anna Bja (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 09:16

2 Smámynd: Brynja skordal

Fallegt á núpi fór stundum á kaffihlaðborð þar þegar ég bjó fyrir vestan Hafðu ljúfa helgi mín kæra

Brynja skordal, 15.3.2008 kl. 10:30

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Yndisleg saga sem segir allt sem þarf að segja um litróf, persónuleika og varanlega vináttu

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 15.3.2008 kl. 11:03

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Synd að Núpsskóli og Reykjanes skuli ekki ennþá vera grunnur fyrir unglinga að kynnast landi og þjóð og hvert öðru.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2008 kl. 12:02

5 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

Frábær pistill.

Anna Kristinsdóttir, 15.3.2008 kl. 16:30

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

 Þið eruð allar yndislegar Nokkuð viss um að það hefði verið gaman að vera með ykkur öllum á heimavistinni!

Annars fékk ég vinsamlega ábendingu, varðandi pistilinn minn í dag, svo ég ætla að bæta því hér við að það var ekkert = merki á milli þess að vera frá Reykjavík og að vera þá vandræðaunglingur!

Sumir komu, af því að foreldrar þeirra höfðu sótt þennan skóla, aðrir af því þeir voru með ævintýraþrá og vildu tilbreytingu, og enn aðrir af því þessi skóli hafði gott orð á sér sem "menntastofnun"!

Anna mín Bjarnadóttir, ég skora á þig að fara að blogga. Ég veit þú hefur frá mörgu að segja!

Sigrún Jónsdóttir, 15.3.2008 kl. 21:56

7 identicon

hahahah Þorpari

Jón Eric (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband