Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Gleðilega hátíð kæru ættingjar og vinir!

Heimkoman
(Smásaga frá 1991)
 
amma_og_afi_1126920.jpg
 
 

Það er júlímánuður árið 1904.  Veðrið er milt og sólin er að hækka á lofti.

Ung kona stendur á fjallsbrúninni innarlega í firðinum.  Við fætur hennar eru pinklar og skjóður.  Hún er smávaxin og fíngerð með blíðlegt bros í fallegu andlitinu.  Hárið er ljósbrúnt og fléttað eins og kóróna um höfuð hennar.  

Það er  eftirvæntingarglampi í fallegu bláu augunum þegar hún horfir á þá fögru sýn sem mætir henni.  Hér verður gott að búa hugsar hún um leið og hún sest á mosavaxinn stein.

Fjörðurinn er fagur þennann sumarmorgun.  Það er logn og sjórinn er sléttur sem spegill, nema þær gárur, er myndast, þar sem lítill árabátur með einn ræðara innanborðs kemur hægt og líðandi inn fjörðinn.

Fjöllin umhverfis eru tignarleg og klædd sínum fegursta sumarskrúða, skógarkjarri, grasi, mosa og inn á milli eru sumarblómin í allri sinni litadýrð.

Sigríður Jóna heitir unga konan á fjallsbrúninni.  Hún er tuttugu og eins árs að aldri og það er komið að tímamótum í lífi hennar.  Að baki eru árin, sem hún átti með foreldrum og yngri systur.  Árin sem mótuðu hana.

Framundan eru leyndardómar lífsins, ástin og afkvæmi hennar.

Hún hefur alist upp við mikinn kærleika og trú á guð.  Allt frændfólkið í litlu Skálavík var sem samhent fjölskylda.  Það hafði ávallt reynst þeim vel.  Móðir Sigríðar Jónu lést fyrir 5 árum og með góðri hjálp sveitunga sinna, hélt hún heimili fyrir föður sinn og gekk Pálmfríði yngri systur sinni í móðurstað.  En nú var faðir hennar líka dáinn.  Hann féll fyrir Ægi, eins og svo margir sjósóknarar hafa gert á undan honum.

Pálmfríður litla hafði yfirgefið átthaganna fljótlega eftir jarðarför föður þeirra.  Hún beið nú komu systur sinnar hjá frændfólki þeirra hérna í Súgandafirði.

Sigríði Jónu fannst erfitt að kveðja sveitina sína og fólkið sem var henni svo kært.  En treginn var farinn að víkja fyrir tilhlökkun.  Hún á nú að baki þriggja kukkutíma göngu yfir grýttan dal og fjall.  

Nú er hún komin í framandi fjörð til ókunnugs fólks.  En Sigríður Jóna er bjartsýn á framtíðina.  Í svona fallegum firði getur bara búið gott fólk.  Frænka hennar og frændi fluttu hingað fyrir nokkrum árum og þau bera fólkinu hérna gott orð.  Svo býr hann hérna hann Albert Finnur, ungi maðurinn, sem hún bast tryggðarböndum í fyrrasumar.

Hún vonar að ræðarinn í árabátnum sé einmitt hann.  Berti, eins og hann er kallaður, lofaði því í fyrrahaust að sækja hana í botn fjarðarins þennann dag.  Hjarta Sigríðar Jónu slær ótt og hún hefur göngu sína niður fjallið.  Ilmurinn í loftinu er dásamlegur og söngur fuglanna er bjartur og tær.

Þegar hún er komin niður fyrir miðja fjallshlíð, leggur hún farangurinn aftur frá sér og sest niður í grasið innan um lágvaxið kjarrið.  Lækurinn, sem hafði tifað niður fjallið samhliða Sigríði Jónu, heldur áfram niður hlíðina.  Hún tekur af sér slitna gönguskó og ullarsokka, sem hún hafði klæðst  og baðar netta fæturna í læknum.  Gönguskórnir hans pabba sáluga hafa þjónað henni vel í urðinni, sem hún hafði undir fótum á þessu ferðalagi.

Hún dregur nú upp forláta steinbíts roðskó, sem hæfa betur klæðnaði hennar.  Hún er klædd svörtu síðu pilsi og stuttum svörtum mittisjakka.  Svuntan og sjalið eru í ljósum sauðalitunum eins og roðskórnir.

Skóna hafði Albert Finnur sent henni með skútunni fyrir síðustu jól.  Þeir eru þjálir og afskaplega vel gerðir og vandaðir.  

Þar sem Sigríður Jóna situr þarna í grasinu og reimar að sér skóna sína, sér hún hvar árabáturinn nálgast vörina fyrir neðan bæjarstæðið að Gilsbrekku neðst í hlíðinni.

Hún sér núna að ræðarinn er Albert Finnur.  Hún brosir og roðnar í vöngum.  Úr augunum ljómar gleði og tilhlökkun.  Hún stendur á fætur, tekur upp pilsfaldinn með annarri hendinni og farangurinn með hinni.  Hún hleypur létt í spori niður hlíðina og alveg niður í fjöru, þar sem Albert Finnur hefur skorðað bátinn sinn.  Hann stendur þarna, hávaxinn og herðabreiður, brosandi með útbreiddann faðminn og ástúðleg glettni skín úr augum hans.

Sigríður Jóna er komin heim.

 

Nóvember 1991,

Sigrún Jónsdóttir.

 

amma_sigga_og_bornin_1126951.jpgSmá eftirmáli fyrir ættingja og vini.... sem vilja bara staðreyndirWink:

Sigga amma var eina amman sem ég þekkti og ég elskaði hana og dáði.  Hún var orðin blind, þegar ég man fyrst eftir henni, en það stoppaði ekki léttleika hennar.  Hún sat við sitt útvarpstæki, söng með tónlistinni og prjónaði.  

Ég man ekki sérstaklega eftir því að amma hafi gefið mér í jólagjöf annað en hina hefðbundnu sokka og vettlinga og það dugði mér frá konunni sem mér þótti vænst um af öllum.

Amma og afi eignuðust 3 börn, sem lifðu.  Kristján, sem dó á þrítugsaldri.  Mömmu mína, Guðjónu, sem lést árið 2000, og Pálmfríði, sem lést árið 2010.

Afkomendur í dag eru 55...að því að ég best veit Smile

 

 

 

Albert Finnur Jóhannesson

Fæddur á Norðureyri í Súgandafirði 13. nóvember 1884

Látinn 20. nóvember 1945


Sigríður Jóna Guðnadóttir

Fædd í Bolungarvík 31. október 1883

Látin 29. desember 1970

 

Guðni Borgarsson

Fæddur í Hólssókn, N-Ís. 27. nóvember 1843

Látinn 23. apríl 1904


Jóna Jónsdóttir

Fædd í Eyrarsókn í Seyðisfirði, N-Ís 31. janúar 1849

Látin 26. febrúar 1899

 

Pálmi Guðnason 1874 - 1874
Pálmi Guðnason 1876 - 1894
Jón Borgar Guðnason 1878 - 1882
Pálmfríður Guðnadóttir 1895 - 1918
Guðmundína Guðnadóttir 1871 - 1872
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 


Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband