Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Minning mín um mæta konu.

Pálmfríður Albertsdóttir BergmannÍ dag fylgdi ég móðursystur minni Pálmfríði Albertsdóttur Bergmann til grafar.  Palla, eins og hún var alltaf kölluð var fædd á Suðureyri við  Súgandafjörð þann  21. Október árið 1920.  Hún hefði  því  orðið níræð í ár en leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en sjötug.  Glæsileg  með létt yfirbragð.   Þannig sá ég hana alla tíð.

Prinsinn hennar Pöllu var sannkallaður Suðurnesjamaður, skipstjóri, sem sótti sjóinn fast eins og segir í ljóðinu.  Hann hét Magnús S. Bergmann og er látinn fyrir nokkrum árum.  Palla og Maggi voru eitt og bjuggu allan sinn búskap í Keflavík og þá lengst af að Heiðarvegi 12.

Minningarnar  flæða.  Palla elskuleg móðursystir  og strákarnir hennar heima á Suðureyri að sumri til.  Maggi á síld.  Þessi sumur voru fljót að líða, allt of fljót.  Kvíanesið og allir þessir strákar Jói Diddi, Abbi, Dúddi, Svenni, Vignir, Albert, Gylfi og Valdi og svo ég.  Yfirleitt eina stelpan.  Er það nokkuð skrítið að maður yrði þessi „ákveðna“  týpa?

Ég hafði mikinn stuðning af Pöllu móðursystur minni, því hún var svona stelpu-stelpa og hefði gjarnan viljað eignast eina sjálf.  Ég fékk að njóta þess.  Palla frænka hafði nefnilega pjatt elementið, sem mömmu mína elskulega skorti. 

Skemmtilegustu ferðir sem ég átti í æsku var þegar ég fékk að fara til Keflavíkur með síldarbátunum hans Magga Bergmann, þegar hann sótti fjölskylduna sína , sem dvalið hafði í Súgandafirði meðan hann var á síldveiðum fyrir norðan eða austan land.  Ég dvaldi þá oftast í 1 til tvær vikur í Keflavík við gott atlæti.

Hjá Pöllu frænku prófaði ég naglalakk í fyrsta skipti.  Eitthvað hlýt ég að hafa naglalakkað „útfyrir“ því Maggi hélt að ég hefði komist í rauða skipamálningu niðri í slipp!  Palla bjargaði því, hreinsaði og kenndi mér  nauðsynlegar grunnreglur við naglalökkun.

Ég fékk svo oft að finna að ég var litla stelpan hennar Pöllu.  Þær voru ekki af verri endanum jólagjafirnar, sem komu  frá  fjölskyldunni á Heiðarveginum í Keflavík.  Rafmagnseldavél (alvöru) og flugfreyjubúningurinn svo eitthvað sé nefnt.  Flottu dressin sem Palla  sendi mér fyrir árshátíðirnar á Núpi  og svo bara hlýjan og ræktarsemin.  Hún hringdi reglulega, bara til að heyra í mér, síðast fyrir nokkrum vikum.  Í fyrra prjónaði hún fyrir mig fallega peysu, sem ég mun hafa í uppáhaldi um ókomna tíð. 

Hún var alla tíð dugleg að sækja samkomur hjá Súgfirðingafélaginu, hvort sem það var Þorrablót eða Kirkjukaffi.  Pöllu fannst  alveg nauðsynlegt að rækta sambandið við fólkið úr átthögunum, þótt eitthvað hafi nú fækkað vinunum á hennar aldri, sem sóttu þessar skemmtanir síðustu ár,  þá leit hún á það sem kært tækifæri að hitta okkur systurbörnin sín og eiga glaða stund með Súgfirðingum almennt. 

Síðasta þorrablót sem við Palla sóttum saman var fyrir þremur árum  og var hún þá á 87. Aldursári, en það var ekki sjáanlegt.  Hún naut sín á dansgólfinu og var að mínu mati glæsilegasta konan í salnum.  Ég var alltaf svo hreykin  af henni Pöllu frænku.

Sami frændgarður!Ég var ásamt mörgum öðrum úr fjölskyldu okkar  samferða Pöllu í hennar síðustu ferð í Súgandafjörðinn, það var árið 2006, eða fyrir fjórum árum síðan.  Frábær ferð í alla staði sem treysti vinabönd afkomenda þeirra systra, Pöllu og Jónu.  Þá gistum við flest í húsi sem stendur á sömu lóð og húsið sem þær systur fæddust í.   Þetta voru sannkallaðir Sæludagar í Súgandafirði og toppurinn var að eiga þessa daga með Pöllu frænku.

Ég mun sakna Pöllu minnar og þakka henni samfylgdina í gegnum lífið.  Þessi samfylgd hefur verið mér dýrmæt.

Ég sendi frændum mínum, Vigni, Alberti, Gylfa og fjölskyldum þeirra mínar dýpstu samúðarkveðjur og bið þeim GuðsblessunarHeart.

 

 


Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband