Leita í fréttum mbl.is

Fjörðurinn minn!

Að alast upp í litlu einangruðu sjáfarþorpi eins og Suðureyri við Súgandafjörð voru forréttindi.

Súgandafjörður er lítill þröngur fjörður á norðanverðum Vestfjörðum mitt á milli Önundarfjarðar, sem er sunnan megin og Skálavíkur/Bolungavíkur í Ísafjarðardjúpi, sem er norðan megin.  Fjörðurinn er S-laga og Suðureyrin er sunnan megin í firðinum og í skjóli fyrir sterkum úthafsvindum.  Enda er varla “lognsælli” fjörð að finna á hinum lognsælu Vestfjörðum. 

sugandafj-25583

Á fögrum sumardögum var um ½ klst. akstur til Ísafjarðar, sem við kölluðum jafnan “höfuðstað” Vestfjarða og svipuð vegalengd var til Flateyrar í Önundarfirði.  Á snjóamiklum vetrum, var eina leiðin frá firðinum okkar sjóleiðin, þannig að segja má að að við höfum í raun  verið “innlyksa” í 6 – 8 mánuði á ári.  Það var bara ekkert verið að “þvælast” að ástæðulausu.

Djúpbáturinn Fagranes kom reyndar til okkar vikulega með hinar ýmsu nauðsynjavörur, s.s. Mjólk, brauð, póstinn, og “dagblöðin”!

Strandferðaskipin Esja og Hekla komu að mig minnir líka vikulega á leið sinni kringum landið.  Aðrar  samgönguleiðir voru ekki fyrir hendi.  Á sjöunda áratugnum bættist svo snjóbíllinn við, sem varð gífurlega mikil samgöngubót og öryggistæki.

Við þessar aðstæður uxum við úr grasi, púkarnir á Suðureyri alveg fram að komu Vestfjarðaganganna, sem liggja frá Skutulsfirði í norðri til Önundarfjarðar í suðri með afleggjara til Súgandafjarðar í miðjum göngum.

Fullorðna fólkið vann flest við “björgun” sjáfaraflans og þegar mikið lá við fengum við “púkarnir” líka að taka þátt í þessum “björgunarstörfum”!  Það var ekki leiðinlegt, fengum stundum frí í skólanum, til að taka þátt í þessum “björgunarstörfum” og pening í ofanílag!

En á meðan fullorðna fólkið vann, baki brotnu við þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, lékum við “púkarnir” lausum hala að því að við töldum, án alls eftirlits og skemmtum okkur konunglega.  Seinna komst maður að því að fullorðna fólkið var alltaf með einhvern á “útkikkinu” til að passa uppá að við færum okkur ekki að voða.  Segja má að þeir fullorðnu hafi gert með sér samkomulag um að ala okkur upp í sameiningu, þótt endanleg ábyrgð væri að sjálfsögðu foreldra hvers og eins.

Menningarlíf var undir íbúunum sjálfum komið og ég verð að segja að það var ansi gott á þeim árum sem ég var að alast upp.  Alltaf eitthvað um að vera.   Skátafélagið Glaðherjar undir stjórn Bigga í Botni, stóð undir nafni, haldnir voru reglulegir skátafundir og farið var í útilegur á sumrin, og meira að segja fóru Abbi bróðir og Dúddi frændi á Jamboree til Grikklands!

Íþróttafélagið Stefnir, stóð fyrir hinum ýmsu íþróttaiðkunum og mótum, og farið var árlega á héraðsmótin, sem venjulega voru haldin að Núpi í Dýrafirði.  Þar kynntumst við Súgfirsku “púkarnir” öðrum vestfirskum “púkum” og háðum við þá keppni í hinum ýmsu íþróttagreinum.

Barnastúkan Vísir nr. 71, var undir stjórn Sigrúnar Sturludóttur á þessum tíma og þar voru einnig reglulegir “fundir”, þar sem ungdómurinn var m.a. æfður í leiklist og upplestri, jú og “templaraheitinu”!.  Barnablaðið Æskan var gefin út af templarahreyfingunni og við vorum flest áskrifendur.

“Árshátíð” barnaskólans, hét á þessum tíma “Barnaskemmtun”.  Hver einasti nemandi skólans hafði hlutverk og tók því alvarlega!  1. bekkur fór með “stökur”.  Bekkurinn stóð í skeifulaga hring á sviðinu og síðan varð hver og einn að stíga fram á mitt svið og fara með sína stöku!  Uppskriftin:  Standa beinn í baki og horfa á götin á veggnum á móti, þar sem kvikmyndavélarnar fyrir bíósýningar eru!  Þannig komst maður hjá því að horfa á allt fólki í salnum!

Fullorðna fólkið var líka með sitt “félagslíf”.  Leikfélagið Hallvarður Súgandi, setti upp leiksýningar á hverjum vetri, og ferðaðist jafnvel til annarra nágrannafjarða á vorin, svo fleiri fengju að njóta.   Kvenfélagið Ársól bauð árlega til Sólarkaffis í félagsheimilinu, þar sem fagnað var komu fyrstu sólargeislanna á eyrina það árið.

Sjómannadags ballið, gamlárskvölds ballið, 2. hvítasunnu ballið og síðast en ekki síst Þorra og Góublótin.  Á Þorrablótin, sem haldin voru annað hvert ár buðu konurnar í þorpinu körlum sínum til blóts og sáu um alla framkvæmd og skemmtiatriði. Um Góublótin sem haldin voru “hitt árið” sáu karlarnir í þorpinu.  Þessi siður tíðkast enn þann dag í dag og eru að sögn þeirra sem til þekkja bestu skemmtanir ársins! 

Við “púkarnir” fengum að sjálfsögðu ekki að taka beinan þátt í þessum “blótum” fullorðna fólksins, en án okkar hefðu þau ekki getað þetta!  Því um leið og “púki” komst á “pössunaraldurinn” var maður bókaður í barnapössun!  En það væri efni í annan pistil.

 

Í kvöld stendur Súgfirðingafélagið í Reykjavík fyrir þorrablóti.  Það verður án efa hin besta skemmtun, þar sem ungir og eldri Súgfirðingar, búsettir á Reykjavíkursvæðinu og nálægum byggðalögum, munu koma saman, rifja upp gamla tíma og nýja , rækta gömlu vinaböndin, skemmta sér og njóta samverunnar!   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Hannesdóttir

Sæl og blessuð Sigrún mín, velkomin í bloggarahópinn . Skemmtileg lesning þetta, við fórum nokkur með mömmu þinn heitinni á stúkuþing í rvk og það var nú ekki leiðinleg ferð einnig fór sú gamla með okkur í skíðaferð og fengum við að gista í skíðaskálanum í Seljalandsdal og sú ferð er ein sú eftirmynnilegasta í mínum huga, gaman hvernig allt rifjast upp við svona lesningu. Já við konurnar hérna buðum körlunum okkar á þorrablót núna 2 feb. og heppnaðist það alveg frábærlega, allavegna fengum við í skemmtinefndinni afar góðar viðtökur. Verð með ykkur í huganum í kvöld, kær kveðja Halldóra.

Halldóra Hannesdóttir, 9.2.2008 kl. 23:29

2 identicon

Hæ Sigrún

Gaman að lesa bloggið hjá þér og rifja upp gamla tíma á Suðureyri. Blótið var frábært og er pottþétt að maður mæti að ári. Kv Jóna

Jóna Lára (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 10:37

3 identicon

Hæhæ, vona að það hafi verið skemmtilegt í gær og vona að þér líði betur í dag en í gær.  (þó ég efi það nú... hmmm...)

Ómar Daníel (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 15:32

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir góðar kveðjur eskurnar mínar!

Halldóra mín, skilaðu kveðju til allra heima í firðinum.

kv. Sigrún Jóns. 

Sigrún Jónsdóttir, 10.2.2008 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband