Leita í fréttum mbl.is

"'Óð" gamalmenni???

Eins og ég hef margoft fjallað um starfa ég á sambýli fyrir fólk með heilabilunar sjúkdóma.  Algengasta sjúkdómsgreiningin hjá mínum skjólstæðingum er Alzheimer eða aðrar heilaskemmdir.

Sunnudagskvöldið síðasta sátum við, ég og samstarfskona mín í stofu heimilisins ásamt skjólstæðingum og  horfðum á sjónvarpsfréttir stöðvar 2 þegar hinn annars ágæti fréttamaður Sigmundur Ernir tilkynnti okkur að fyrrverandi forsætisráðherra Englands væri orðin "elliær" eins og sjá má hér.

Mér var brugðið og þannig var um fleiri í stofunni okkar, ekki vegna innihalds fréttarinnar, heldur lýsingarorðsins, sem notað var af þessu tilefni, sumir skjólstæðinga minna eru nefnilega meðvitaðir um eigið ástand. 

Samkvæmt hinu breska  Telegraph er ástand Margrétar Thatcher afleiðing endurtekinna heilablæðinga, sem hafa skaðað heilastarfsemi hennar.

Lýsingarorðið "elliær" er afar neikvætt orð, sem ætti ekki að nota undir neinum kringumstæðum, þegar fjallað er um fólk með heilabilunarsjúkdóma.  Það verður enginn "ær" (óður) vegna elli og það þarf ekki háan aldur til að hljóta sömu örlög og Margrét Thatcher.

"Járnfrúin" var ekki í miklu uppáhaldi hjá mér þegar hún var forsætisráðherra og á þeim tíma hef ég eflaust notað nokkur neikvæð lýsingarorð um hana og hennar ákvarðanir en í dag er hún sjúklingur, sem á skilið nærgætni og góða umönnun.

Það er kannski kaldhæðni örlagana að heilbrigðis- og félagsþjónusta varð útundan í breskri stjórnsýslu undir stjórn Margrétar Thatcher. 

Hvernig væri að íslenskir stjórnmálamenn áttuðu sig á því að engin er óhultur, þegar kemur að heilabilunarsjúkdómum eins og dæmin sanna.  Ronald Reagan, fv. forseti Bandaríkjanna og Margaret Thatcher, fv. forsætisráðherra Bretlands, voru um tíma valdamesta fólk í heiminum, en þau gleymdu bæði á sínum valdatíma að efla heilbrigðisþjónustu sinna landa.  Örlög þeirra beggja var einn erfiðasti sjúkdómur sem hægt er að hugsa sér, heilabilun. 

Það er svo sannarlega of seint í rassinn gripið að ætla að berjast fyrir úrbótum í heilbrigðisþjónustunni ef viðkomandi verður heilabilun að bráð. 

Ég vil enda þennan pistil á því að fara fram á það við fréttamenn og aðra þá sem fjalla um sjúkdóma á opinberum vettvangi að vanda orðaval sitt og nota rétta sjúkdómsgreiningu í umfjöllun sinni.  Ég efast um að Sigmundur Ernir myndi nota orðið "elliær" um nákominn ættingja með heilabilunarsjúkdóm á borð við Alzheimer.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Já ég hjó eftir þessu en ég geng skrefinu lengra, ég vil alls ekki hafa þetta frétt. Konan er 82 ára og gegnir ekki lengur neinu stóru embætti. Þetta er bara ekki okkar hinna mál

Ragnheiður , 26.8.2008 kl. 21:14

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Satt og rétt! Elliær er ljótt orð og ætti ekki að notast undir neinum kringumstæðum!

Hrönn Sigurðardóttir, 26.8.2008 kl. 22:22

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Frábær pistill og mikilvægar ábendingar. Tek undir með þér að öllu leyti.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 26.8.2008 kl. 23:48

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hárrét Sigrún og sjaldan of oft brýnt fyrir fólki að reyna ekki að krydda einhverjar fréttir með óviðeigandi og meiðandi orðalagi. Góður pistill.

Haraldur Bjarnason, 27.8.2008 kl. 00:53

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Góð ábending, takk fyrir góðan pistil Sigrún

Ía Jóhannsdóttir, 27.8.2008 kl. 05:42

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góður pistill.  Þetta er auðvitað heldur ekki frétt.

En elliær er þó orðið sem mér dettur í hug um Matthías og dagbókarbirtingar hans

Hólmdís Hjartardóttir, 27.8.2008 kl. 09:49

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Elliglöp er þolanlegra orð.  Annars er heilabilunarsjúkdómur, eða öldrunarsjúkdómur ágætis orð. 

Takk fyrir þessa frábæru færslu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2008 kl. 11:09

8 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta er ljótt og neikvætt, svona viljum við ekki láta tala við okkur í fréttatíma landsmanna.
Þarft innlegg Sigrún mín.
Knús í daginn þinn.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.8.2008 kl. 08:40

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já okkur hættir til að vera hjartalaus þegar kemur að því að segja eitthvað um aðra.  Þar þarf hver að líta í eigin barm og hugsa, hvernig vil ég láta tala um mig og mitt fólk.  Knús á þig Sigrún mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2008 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir

Samfélagsmál eru allra mál!

 

sigrunjonsdottir@internet.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband